Námskeið um örverufræði, 11. – 13. júní 2014
Næsta sumarnámskeið Samlífs verður haldið dagana 11. – 13. júní og ber yfirskriftina Örverufræði. Námskeiðið er ætlað líffræðikennurum á hvaða skólastigi sem er.
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur öðlist aukna þekkingu á örverum, eiginleikum þeirra og hlutverkum, kynnist helstu rannsóknum í örverufræði og sérstöðu þeirra hér á landi og geti miðlað þekkingu sinni áfram til nemenda á grunn- og framhaldsskólastigi.
Námskeiðið er samsett af fyrirlestrum og vettvangsferð. Örverur gegna veigamiklu hlutverki í lífheiminum. Þær eru mikilvægar í hringrás efna og mynda undirstöður flókinna vistkerfa. Undanfarin ár hafa erfðafræðilegar greiningar bætt miklu við þekkingu á breytileika örvera og hlutverkum þeirra í náttúrunni. Á námskeiðinu verða niðurstöður slíkra rannsókna kynntar auk þess sem öðrum viðfangsefnum örverufræðinnar verða gerð skil, einkum þeim sem hafa mikil áhrif á mannlegt samfélag. Þar má nefna sjúkdómsvaldandi örverur, faraldra og matvælaöryggi. Einnig verður fjallað um hagnýtingu örverufræðinnar og tengsl greinarinnar við atvinnulífið. Lögð verður áhersla á að kynna rannsóknir á örverum sem tengjast íslenskri náttúru, ekki síst hinum einstæðu íslensku jarðhitasvæðum. Námskeiðið verður haldið í húsakynnum Matís en þar starfa örverufræðingar að ýmsum verkefnum og munu þeir kynna viðfangsefni sín. Að auki verða ýmsir gestafyrirlesarar fengnir að námskeiðinu í samstarfi við Örverufræðifélag Íslands. Þátttakendur námskeiðsins munu því geta aukið miklu við þekkingu sína á örverum, eiginleikum þeirra og hlutverkum og miðlað henni áfram til nema á grunn- og framhaldsskólastigi.
Kennarar/fyrirlesarar:
Dr. Guðmundur Óli Hreggviðsson, líffræðingur, fagstjóri hjá Matís og prófessor í örverufræði hjá Háskóla Íslands.
Dr. Snædís Björnsdóttir, líffræðingur, verkefnisstjóri hjá Matís og aðrir gestafyrirlesarar.
Námskeiðsgjald (staðfestingargjald) er aðeins 5.000 kr en inni í því eru auk fyrirlestra og rútu í vettvangsferð, veitingar í kaffihléum og hádegisverður alla dagana.
Umsóknarfrestur vegna skráningar: 1. maí 2014.
Skráning fer fram hjá Samlíf. Fjöldi þátttakenda er takmarkaður við 25 manns vegna vettvangsferðar.
Miðvikudag og fimmtudag fer námskeiðið fram í húsnæði Matís, Vínlandsleið 12, 113 Reykjavík.
Dagskrá námskeiðs
Miðvikudagur 11. júní | |
08:30-11:30 | Örverusamfélög |
08:30-09:15 | Överuþekjur og fjöldaskynjun.Snædís H. Björnsdóttir, verkefnastjóri, svið líftækni og lífefna, Matís. |
09:15-10:00 | Íslenskar örverurannsóknir á hinum ýmsum vatnabúsvæðum, frá hyldýpi út í geim!Viggó Þór Marteinsson, fagstjóri, svið öryggis, umverfis og erfða, Matís. |
10:00-10:15 | Kaffihlé |
10:15-11:00 | Rannsóknir á erfðamengjum umhverfisins (metagenome analysis).Ólafur H. Friðjónsson, verkefnastjóri, svið líftækni og lífefna, Matís. |
11:00-11:45 | Blágrænbakteríur í fléttum og mosum: Áburðarverksmiðjur sem knýja þurrlendisvistkerfi?Ólafur S. Andrésson, prófessor, Háskóli Íslands. |
11:45-12:30 | Hádegisverður |
12:30-15:00 | Hagnýting örvera |
12:30-13:15 | Nýting örvera til eyðingar brennisteinsvetnis.Jakob K. Kristjánsson, forstjóri, Prókatín. |
13:15-14:00 | Örverur, ensím og lífmassaver.Guðmundur Óli Hreggviðsson, fagstjóri, svið líftækni og lífefna, Matís. |
14:00-14:15 | Kaffihlé |
14:15-15:00 | Hagnýting örvera til ölgerðar.Gumundur Mar Magnússon, bruggmeistari, Ölgerðin. |
15:00-16:00 | Kynning á rannsóknarstofum Matís og tækjabúnaði til örverurannsókna. |
Fimmtudagur 12. júní | |
08:30-11:30 | Sjúkdómsvaldandi örverur |
08:30-09:15 | Chlamydia og lekandi á Íslandi og víðar.Guðrún Sigmundsóttir, yfirlæknir sóttvarna, Landlæknisembættið. |
09:15-10:00 | Sýklalyfjaónæmi. Helsta ógn nútíma læknisfræði.Karl G. Kristinsson, yfirlæknir, sýklafræðideild LSH. |
10:00-10:15 | Kaffihlé |
10:15-11:00 | Veirur í umræðunni.Sunna Helgadóttir, sameindaerfðafræðingur, veirufræðideild LSH. |
11:00-11:45 | Örverur í húsum og áhrif þeirra á inniloft.Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri, Hús og heilsa. |
11:45-12:30 | Hádegisverður |
12:30-15:00 | Örverur sem tengjast búfénaði, matvælum og meltingu |
12:30-13:15 | Smitsjúkdómastaða íslensks búfjár.Vilhjálmur Svansson, dýralæknir, Keldum. |
13:15-14:00 | Bakteríur í görninni stjórna lífi og heilsu okkar.Michael Clausen, barna- og ofnæmislæknir, LSH. |
14:00-14:15 | Kaffihlé |
14:15-15:00 | Hættur í matvælum og umhverfi.Franklín Georgsson, sviðsstjóri, svið mælinga og miðlunar, Matís. |
15:00-16:00 | Kynning á rannsóknarstofum Matís og tækjabúnaði til örverurannsókna. |
Föstudagur 13. júní | |
08:30-16:00 | Vettvangsferð |
08:30-09:15 | Þátttakendur safnast saman við BSÍ í Reykjavík. Ekið með rútu ÞÁ bíla til Hveragerðis. |
09:15-12:00 | Örverur í íslenskri náttúru. Örverusamfélög skoðuð, gengið verður um svæðið ofan við Hveragerði. (Takið með ykkur stígvél!) |
12:00-13:15 | Hádegisverður |
13:15-14:00 | Heimsókn til MAST á Selfossi. |
14:00-15:00 | Heimsókn í MS Selfossi (Mjólkurbú Flóamanna). |
15:00-16:00 | Ekið til Reykjavíkur. |
Vettvangsferð með fyrirlestrum. Ferð um Suðurland þar sem skoðuð verða örverusamfélög, m.a. í heitum hverum. Einnig verða heimsótt fyrirtæki á svæðinu sem hagnýta örverur, einkum við matvælaframleiðslu.
Umsjónarmaður/tengiliður: Ester Ýr Jónsdóttir, esteryr (hjá) gmail.com