Félagsbréf_1_16Aðalfundur Samlífs

Boðað er til aðalfundar Samlífs, samtaka líffræðikennara laugardaginn 2. apríl 2016 kl. 12:00 á Litlu Brekku við Lækjarbrekku.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

  1. Fundarsetning.
  2. Skýrsla stjórnar Samlífs fyrir árið 2015.
  3. Reikningar Samlífs fyrir árið 2015.
  4. Kjör stjórnarmanna og embættismanna félagsins.
  5. Önnur mál.
  6. Matarmikil súpa borin fram.
  7. Fræðsluerindi: Uppruni og þróun íslenska  lífríkisins. Dr. Snorri Baldursson
  8. Fundarslit.

Allir líffræðikennarar eru velkomnir!

Vegna veitinga er mikilvægt að skrá sig með því að senda póst á Samlíf, liffraedikennarar@gmail.com, fyrir 25. mars.

Uppruni og þróun íslenska lífríkisins

Ágrip af erindi Snorra Baldurrsona sem hann mun flytja á aðalfundi Samlífs.

Spurningin um það hvort hluti íslenska lífríkisins hafi þraukað á jökul­skerj­um og annesjum síðasta kuldatímbili ísaldar eða hafi allt þurrkast út og sé að­flutt eftir að ísöld lauk fyrir um 10.000 árum hefur löngum heillað fræði­menn. Nú hallast flestir að hinu síðara enda benda rannsóknir til að síðasta kuldaskeið hafi verið feykihart og ísaldarjökullinn náð langt í sjó fram.

Allavega má gefa sér að mestur hluti landsins hafi verið lífvana þegar jökull­­­inn hopaði og þá vaknar spurningin um það hvernig allar þær teg­undir örvera, plantna og dýra bárust hingað á þessa eyju í miðju Atlants­hafi og námu hér land. Ekki verður sagt um það með neinni vissu, en hér á landi finnast aðstæður sem á litlum skala líkja eftir aðstæðum í lok ísaldar.

Í og við jaðra Vatnajökuls er sífellt að verða til nýtt líflaust undirlag sem bíður þess að vera numið af lífverum. Þetta land verður til vegna eldvirkni og jökulhops og má í því sambandi nefna: jökuljaðra (jökulöldur og mó­ren­ur), urðarrana, jökulsker, flóðsléttur, nýrunnin hraun og vikra. Til að varan­legt landnám lífvera takist á þannig landi þarf ýmislegt að ganga upp. Lífverurnar þurfa með einhverjum ráðum að berast inn á viðkomandi svæði og ekki síður að finna þar heppileg set eða búsvæði til þess að þær geti vaxið og dafnað og aukið kyn sitt. Það ferli sem þá tekur við kallast sam­félagsmyndun eða framvinda sem endar í dínamísku lífverusamfélagi.

Í erindinu verður spáð í landnám lífríkis á Íslandi eftir að síðasta kulda­skeiði ísaldar lauk, einkum með hliðsjón af rannsóknum í og við Vatnajökul og í Surtsey sem reis lífvana úr sæ en skartar nú heilmiklu lífríki. Þá verður fjallað um þær leiðir sem lífverur hafa til að flytja sig milli staða, um skyld­leika lífríkisins við önnur lönd og um mismunandi kenningar varðandi eðli og starfsemi samfélaga. Að hve miklu leyti er samfélagsmyndun á tilteknu svæði fyrirsjáanleg? Fylgir hún fyrirfram gefnum lögmálum eða eru til­vilj­an­ir ráðandi; „rétt lífvera á réttum stað“?