Reykjavík, 30. mars 2015
Til: Mennta- og menningarmálaráðherra
Efni: Ályktun um Náttúruminjasafn Íslands
Aðalfundur Samtaka líffræðikennara (Samlíf) haldinn 21. mars 2015 lýsir yfir vonbrigðum með þá stöðu sem Náttúruminjasafn Íslands býr við, þrátt fyrir að rúm 125 ár séu síðan hugmyndin um náttúrufræðisafn þjóðarinnar var fyrst rædd af alvöru. Um áratuga skeið ríkti algjör óvissa um aðstöðu safnsins til sýninga-halds og nýlega sagði hið opinbera upp skrifstofuaðstöðu safnsins. Ríkið hefur ekki lagt nægilegt fé til Náttúruminjasafnsins sem kemur í veg fyrir að safnið geti sinnt lögbundnum hlutverkum á sviði rannsókna, sýninga, fræðslu og upplýsingamiðlunar.
Náttúruminjasafnið á að vera eitt af þremur höfuðsöfnum þjóðarinnar. Náttúra lands og sjávar hefur verið uppspretta innblásturs og auðæva, og það er þjóðinni afskaplega mikilvægt að sem flestir þegnar skilji krafta náttúrunnar og leyndardóma. Erlendis eru náttúruminjasöfn fjölsóttir staðir, þar koma ferða-menn, skólabörn og fjölskyldur í frítíma sínum. Virtustu náttúruminjasöfnin eru einnig mikilvægur vettvangur rannsókna, á t.d. jarðfræði, líffræði eða stein-gervingum. Flest slíkra safna hafa í auknum mæli samtvinnað rannsóknir og fræðslu, t.d. með því að bjóða gestum að skoða rannsóknaraðstöðu eða fræðast um framvindu rannsókna. Nemendum í grunn- og framhaldsskólum hérlendis myndu opnast einstakir möguleikar með opnun Náttúruminjasafns. Skólaheim-sóknir í safnið og vitjanir á rannsóknarstofur þess myndu gefa æsku landsins einstakt tækifæri til að kynnast aðferðum vísindanna og læra um náttúru og auð-lindir lands og sjávar.
Hérlendis hafa verið tækifæri til úrbóta á undanförnum árum, og þá ber hæst hugmynd um grunnsýningu um náttúru Íslands í Perlunni á Öskjuhlíð. Borgaryfirvöld hafa áhuga á verkefninu og fjárfestar eru reiðubúnir til þátttöku. Ríkið þarf eingöngu að axla ábyrgð sem því ber lögum samkvæmt og sýna vilja til samstarfs. Staðurinn er einstaklega heppilegur, í nálægð við hin höfuðsöfn þjóðarinnar, tvo sterka háskóla, ferðaþjónustu og fjölbreytta íslenska náttúru með stórbrotnu útsýni.
Aðalfundur Samlífs hvetur stjórnvöld eindregið til að leysa úr vandamálum Náttúruminjasafns Íslands. Þessu höfuðsafni þjóðarinnar þarf að tryggja húsnæði og fjármagn. Fundurinn hvetur mennta- og menningarmálaráðherra til að ráða bót á og styðja sómasamlega við starfsemi þessarar mennta- og menningar-stofnunar sem undir hann heyrir.
F.h. Samtaka líffræðikennara
Hólmfríður Sigþórsdóttir, formaður

Samrit sent:
Mennta- og menningarmálaráðherra, Illuga Gunnarsson
Aðstoðarmanni Mennta- og menningarmálaráðherra, Sigríði Hallgrímsdóttur
Ráðuneytisstjóra Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Ástu Magnúsdóttur
Gæðastjóra Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Leif Eysteinsson
Deildarstjóra Stefnumótunar- og þróunardeildar Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Björg Pétursdóttur
Deildarstjóra Framhaldsskóladeildar Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Ólaf Sigurðsson