Fréttabréf 
Samlífs
Samtaka líffræðikennara

Ábm. Jóhann Guðjónsson

Apríl 2000

Verkefni Samlífs – samtaka líffræðikennara í sumar.

Með þessu Fréttabréfi er ætlunin að kynna þau námskeið sem samtökin standa að í sumar. Þessi námskeið sem styrkt eru af ýmsum aðilum eru eitt helsta starf samtakanna og þar hittast líffræðikennarar af öllum skólastigum, bera saman bækur sínar, læra ýmislegt hagkvæmt bæði hvað snertir fagið en einnig kennslufræði. Námskeiðin sem Samlíf hefur staðið að hafa þótt mjög góð, bæði faglega og félagslega, enda eru þeir margir sem sækja þau reglulega og finnast þau ómissandi þáttur af sumarleyfinu. Þessi námskeið eru ódýr því námskeiðsnefndirnar hafa verið óþreytandi að sækja um styrki svo þátttakendurnir þurfi ekki að draga fé frá sínum rýru launum. Námskeiðin eru opin öllum kennurum án tillits hvort þeir eru í Samtökum líffræðikennara eða ekki. Í sumar stöndum við að þremur stórum námskeiðum, sem öll hljóta að teljast áhugaverð, þar að auki komum við að vettvangsnámi fyrir raungreinakennara í framhaldsskólum ásamt Félagi raungreinakennara og Endurmenntunarstofnun HÍ sem verður næsta vetur. Ég vona að félagmenn finni þar eitthvað við sitt hæfi. Sjáumst.

Jóhann Guðjónsson
Formaður Samlífs. Netfang: johgud@ismennt.is

 

  • námskeið: 6. – 8. júní 2000

GLOBE – verkefnið

Staður: Flensborgarskólinn í Hafnarfirði.

Þátttakendur: Kennarar úr grunn – og framhaldsskólum. Æskilegt er að fleiri er einn kennari komi úr hverjum skóla.

Umsóknarfrestur: 15. maí 2000. Hægt er að sækja um hjá Endurmenntunarstofnun HÍ, Dunhaga 7, 107 Reykjavík fax: 5254080 eða hjá umsjónarmanni: Jóhann Guðjónsson netfang: johgud@ismennt.is sími: 5552119 (heima) 5650400 (skóli) fax: 5650491.

Glóbe verkefnið er stærsta alþjóðlega kennsluverkefnið í heiminum í dag. Þátttökulöndin eru nú orðin 88 og fjöldi skóla sem tekur þátt er kominn hátt í 10.000. Hægt er að skoða umfang verkefnisins og framkvæmd á heimasíðu þess: http//www.globe.gov

Ísland hóf þátttöku 1997 og eru nú 7 íslenskir skólar sem taka þátt. Markmið verkefnins er að efla raungreinar og tölvunotkun. Það er hugsað sem viðbót til að dýpka nám í raungreinum og umhverfisfræði en ekki að það komi í stað neinna ákveðinna þátta.

Verkefnið fellst í því að mæla ákveðna umhverfisþætti reglulega: Þeir þættir sem eru mældir eru m.a lofthiti, hámark og lágmark hvers dags, skýjagerðir og skýjahula, úrkoma; magn og sýrustig. Yfirborðsvatn; sýrustig, leiðni, harka, uppleyst súrefni, nítrat. Gróður; gróðurþekja, algengustu tegundir, tré: hæð þeirra, ummál, laufþekja. Jarðvegur; kornastærð, lagskipting, litir. Árstíðabreytingar: brumun plantna, o.fl.

Niðurstöður mælinganna eru svo settar inná sameiginlegt gagnasafn sem sjá má á heimasíðu Globe. Úr þessu gagnasafni má síðan vinna og bera saman svæði bæði innanlands og utan. Gagnasafnið er nú orðið feikistórt, fleiri milljónir færsla og möguleikar á grafískri úrvinnslu eru sífellt að batna. Verkefnið gefur mikla möguleika á alþjóðlegri samvinnu bæði á milli nemenda og kennara skóla um allan heim.

Á námskeiðinu verður farið í vinnubrögðin við verklegu þættina, kynnt hvernig staðið er að innslætti gagna, fræðilegan bakgrunn mælinganna, skoðaðar gervihnattamyndir sem fylgja verkefninu og hvernig má nýta þær í kennslu. Verkefninu fylgja líka mörg verkefni sem nýta má við kennslu raungreina. Þau verða kynnt eftir því sem tími gefst til.

Með þátttöku í námskeiðinu fá kennarar rétt til að taka upp verkefnið í sínum skóla.

 

  • námskeið: 19. – 23. júní 2000

Landbúnaður og landbúnaðarframleiðsla

Staður: Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri Borgarfirði

Þátttakendur: Kennarar í grunn – og framhaldsskólum.

Umsóknarfrestur: 15. maí 2000. Hægt er að sækja um hjá Endurmenntunarstofnun HÍ, Dunhaga 7, 107 Reykjavík fax: 5254080 eða hjá umsjónarmanni: Hilmar J. Hauksson , sími: 5673562, netfang: hjh@fb.is

Íslenskur landbúnaður er stöðugt í umræðu og starfsemi innan hans tengist eðlilega kennslu í náttúrufræðum. Á síðustu árum hafa áherslur breyst í landbúnaði og þekking manna innan hans aukist. Það eru miklu fleiri þættir sem falla undir landbúnað núna en gerðu áður. Þess vegna er eðlilegt að Samtök líffræðikennara standi að námskeiði sem fjallar um íslenskan landbúnað.

Helstu viðfangsefni eru:Vistfræði og heimspeki náttúrufræðinnar, landgræðsla og skógrækt, beitarfræði, jarðrækt, áburður í landbúnaði, endurnýting á úrgangi, fóðurverkun, fóðurfræði, líffræði búfjár og erfða- og kynbótafræði, sauðfjárrækt á Íslandi og víðar, hrossin okkar, nautgriparækt, umhverfismál, lífræn ræktun, kornrækt á Íslandi – fyrr og nú, úrvinnsla landbúnaðarafurða. Farin verður skoðunarferð um Borgarfjörð.

Meðal kennara verða m.a.:Andrés Arnalds, Friðrik Aspelund, Guðmundur Jóhannesson, Jóhannes Sigvaldason, Jónatan Hermannsson, Svanhildur Hall, Sveinn Hallgrímsson og Torfi Jóhannesson.

Þessi árlegu námskeið Samlífs sem haldin hafa verið í nær tuttugu ár hafa verið mjög vinsæl og þátttakendurnir án undantekninga verið ánægðir með bæði faglegu hliðinu og ekki síður þá félagslegu. Þarna dvelja um þrjátíu líffræðikennarar á fallegum stað í fimm daga og skiptast á skoðunum um allt sem lýtur að kennslu í líffræði.

  • námskeið: 14. – 15. ágúst 2000

Frumulíffræði heilkjarnafruma og veirufræði

Staður: Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, Dunhaga 7, 107 Reykjavík

Þátttakendur: Kennarar í framhaldsskólum.

Umsóknarfrestur: 25. júní 2000. Hægt er að sækja um hjá Endurmenntunarstofnun HÍ, Dunhaga 7, 107 Reykjavík fax: 5254080 eða hjá umsjónarmanni: Ásgrímur Guðmundsson, sími: 5705600, netfang: ag@fb.is

Sú breyting verður á líffræðinámi í framhaldsskólum með nýju námskránni að í kjarnanámi í náttúrufræðum verður áfangi þar sem megináherslan verður fruman, bygging hennar og starfsemi. Veirur og erfðafræði verða einnig stórir þættir í þessum áfanga. Það er því ekkert skrýtið að Samtök líffræðikennara standi að námskeiði um frumur og veirur, en við stóðum að námskeiði um erfðafræði fyrir tveimur árum.

Viðfangsefnin verða m.a. gerð og eiginleikar stórsameinda, frumugrindin, örþræðir og örpíplur, frumukjarni, frumuhringur, frumuvöxtur, frumuskipting og samskipti milli fruma. Í veirufræðinni verður megináherslan á manna- og dýraveirur, bæði DNA og RNA veirur, flokkun þeirra, skyldleika og þróun. Líka verður fjallað um veirunga og príon.

Kennarar verða þeir Halldór Þormar prófessor í frumufræði við HÍ og Sigurður Ingvarsson dósent við læknadeildina.

Faglegu námskeiðið sem við höfum staðið að hafa verið mjög góð, kennarar verið vel undirbúnir og fagleg þekking þeirra og skipulag til fyrirmyndar enda búum við sem höfum sótt þau lengi að þeim. Án efa verður þetta námskeið svipað.

 

  • námskeið: Veturinn 2000 – 2001

Vettvangsnám fyrir raungreinakennara

Þátttakendur: Kennarar í framhaldsskólum. Nauðsynlegt er að flestir raungreinakennarar hvers skóla taki þátt.

Umsóknarfrestur: 1. maí 2000. Hægt er að sækja um hjá Endurmenntunarstofnun HÍ, Dunhaga 7, 107 Reykjavík fax: 5254080 eða hjá umsjónarmanni: Jóhann Guðjónsson netfang: johgud@ismennt.is sími: 5552119 (heima) 5650400 (skóli) fax: 5650491.

Þetta námskeið verður með svipuðu sniði og samsvarandi vettvangsnámskeið í öðrum greinum hafa verið. Þátttakendur hittast á sameiginlegum fundum ca. þrisvar yfir veturinn og skiptast á skoðunum og hugmyndum. Megináherslan er að byggja grunn undir kennslu í nýju NÁT áföngunum, setja upp verkefni, sem þar má nota, finna og prófa verklegar æfingar og deila reynslu úr kennslustundum. Stór hluti námskeiðsins verður unnin í hverjum skóla fyrir sig og hittast raungreinakennaranir þar einu sinni í viku og vinna að ákveðnum verkefnum. Þátttakendur fá einn tíma á viku í kennsluafslátt til að sinna þessari vinnu. Við notum tölvupóst til að skiptast á skoðunum og reynslu. Ekki er að efa að svona námskeið getur nýst okkur vel til að bæta hjá okkur kennsluna, því lengi má gott bæta. Það er nauðsynlegt að raungreinakennarar í hverjum skóla komi saman og sæki um svo námskeiðið falli ekki niður eins gerðist síðast þegar reynt var að standa að vettvangsnámi fyrir raungreiankennara.

Námskeið erlendis.

Með samvinnu við líffræðikennara á hinum Norðurlöndunum getum við nú sótt um námskeið sem kennarar þar standa að. Það er hægt að sækja um styrki til utanfara á námskeið bæði hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands (Þar er líka hægt að sækja um styrki til námskeiða hér á landi sem aðrir en Endurmenntunarstofnunin standa að.) og hjá Vísindasjóði KÍ. Hér eru tvö þeirra námskeiða sem kollegar okkar á hinum Norðurlöndunum standa að í sumar:

Sumarnámskeið Biologforbundets í Danmörku verður í Bryrup 25. – 29. júní 2000.

Það hefst með tveggja daga ferðalagi á kanóum um Gudenána og skoða á dýra- og plöntulíf í ánni og við hana. Seinni þrjá dagana er dvalið í Kulsö og skógurinn þar skoðaður. Verð: 1500.- DKR (innifalið í því er matur, gisting og bátaleiga). Upplýsingar gefur Anders V. Thomsen, Lundtoftegade 88, 2200 Köbenhavn N, netfang: a.thomsen@city.dk

Sænsku líffræðikennararnir eru með námskeið um skordýr á Gotlandi, 24. – 30. júlí 2000. Þeir gefa ekki upp verð en upplýsingar gefa Hakan Elmquist og Lars Imby í símum 0159-12595 og 08-385776.

Ef viðtakandi finnst ekki, vinsamlegast endursendið fréttabréfið.

Samlíf – Samtök líffræðikennara

Pósthólf 8282

128 Reykjavík


Smelltu hér til að komast á upphafssíðu