Fréttabréf 
Samlífs

Samtaka líffræðikennara

Ábm. Jóhann Guðjónsson

Apríl 2003

 

Aðalfundur 2002:  23.nóv. 2002

Fundurinn var haldinn á Lækjarbrekku og aldrei þessu vant var hann vel sóttur og umræður ágætar. Meðal annars var rætt hvort við ættum að styrkja nemendur í líffræðinámi (MS), en ekki voru menn sammála því. Það sem við höfðuð hugsað var að styðja nemendur í kennslufræði raungreina (MS námi) ásamt öðrum sem vinna við verkefni sem hægt væri að nota í kennslu, svo sem að fylgjast með farfuglum eða öðrum árstíðamörkum. Það var ekki áhugi fyrir slíku.

Fjárhagur samtakanna er góður og velta þau nokkrum milljónum á ári, sérstaklega vegna sérverkefna sem samtökin hafa tekið að sér. Samlíf á því nokkra fjármuni í sjóði, sem styrkir starfsemi þess.

Örnólfur Thorlacius kynnti á fundinum nýja útgáfu af Lífeðlisfræði sem kom út á haustdögum.

Ný stjórn var kosin á aðalfundi 23.nóvember 2002. Hana skipa

Jóhann Guðjónsson Flensborg formaður, johgud@ismennt.is

Skúli Þór Magnússon MS(í orlofi),  sthm@ismennt.is

Sigurlaug Kristmannsdóttir FÁ, sigurlaug@fa.is

Eva Benediktsdóttir HÍ, eben@hi.is

Kristján Sigfússon Hlíðaskóla, Sigfusson1@msn.com

 

Verkefni vorannar 2003.

 

1. Heimasíðan

http://www.ismennt.is/vefir/samlif/index.htm

Sigurlaug hefur tekið að sér umsjón heimasíðunnar. Netfangið hennar er  <sigurlaug@fa.is> og eru allar sendingar til hennar sem koma þarf á heimasíðuna meira en vel þegnar. Líffræðikennarar mættu vera duglegri að heimsækja síðuna og tengja hana við sig og senda Sigurlaugu tengingar við sig. Þetta á meðal annars um líffræðiverkefni á heimasíður sem nemendur eru að gera hver í sínum skóla. Síðan verður ekki metin nema að í hana séu margar vísanir og öfugt. Einnig ef þið eigið myndir eða efni frá fyrri tíma Samlífs gætuð þið skannað eitthvað af því inn og sent Sigurlaugu. Munið því síðuna. Fréttabréfið fer inn á síðuna eins fyrri bréf.

 

2. Inntökupróf Læknadeildar Háskóla Íslands

Við höfum haldið nokkra fundi með kennurum Læknadeildar til undirbúnings inntökuprófs deildarinnar sem lagt verður fyrir í fyrsta sinnið í júní næstkomandi. Forsjármenn Læknadeildar vilja að spurningarnar komi úr sem flestum framhaldsskólum. Ákveðið var að Samlíf hefði milligöngu um sölu á spurningum sem varða líffræði og verður svipað fyrirkomulag haft við önnur fagkennarafélög. Síðast þegar ég vissi voru komnar inn um 200 spurningar úr líffræðiþættinum en vonast var um 250. Nokkrir skólar hafa ekki tekið þátt í þessu og er það miður, þar sem æskilegt er að spurningarnar komi úr sem flestum áttum og nemendur úr öllum skólum standi sem jafnast að vígi í prófunum.

 

3. Umhverfismennt í framhaldsskólum

Hugi Ólafsson í Umhverfisráðuneytinu sendi mér bréf  í byrjun mars þar sem hann spurðist fyrir um áhuga á því að kanna hvað væri verið að gera í umhverfismennt í framhaldsskólum. Ég hef fengið Hólmfríði í FG og Rut í MH með í það verkefni. Við Rut fórum á fund í umhverfisráðuneytinu 15. apríl sl. og þar var ákveðið að Samlíf sæi um að semja spurningalista sem sendur yrði út til framhaldsskóla næsta haust. Það er Umhverfisfræðsluráð sem stendur á bak við könnunina. Við munum semja þessar spurningar og eigum að skila þeim inn í byrjun maí og því bið ég ykkur sem hugsið eitthvað um þessi mál að hafa samband hið snarasta ef ykkur finnst ástæða til að spyrja einhvers sérstaks. Gert er ráð fyrir að ljúka verkefninu í nóv.-des. á þessu ári.

 

4. Ungir vísindamenn

Fyrir áramót hafði Gunnar Guðmundsson samband við mig um þátttöku Íslendinga í keppni ungra vísindamanna í árlegri evrópskri keppni vísindaverkefna. Gunnar hætti fljótlega en í stað hans kom Stefanía Kristinsdóttir hjá Rannsóknarstofnun HÍ sem hefur verið afar dugleg að kynna keppnina. Sendar voru fyrirspurnir til allra framhaldsskólana og Stefanía heimsótti marga þeirra. Samt tókst ekki að fá verðugan fulltrúa til að taka þátt í keppninni þetta árið. Ég hvet alla kennara til að nota það tækifæri sem þeir hafa í áfanganum Líf303 til að stuðla að því að nemendur reyni á þolrifin og finni eitthvað verkefni sem verði þess virði að senda í keppnina.

 

5. NBR. Fundur í Sviþjóð 29. – 30. mars 2003.

NBR (Nordisk Biologisk Råd) hefur legið í dvala í nokkur ár en það var virkast á níunda áratug síðustu aldar. Susanne Fabricius bauð til fundar NBR í tengslum við afmæli Sænska líffræðikennarafélagsins (70 ára). Ég sendi á póstlistanum boð til félagsmanna um hvort einhver áhugasamur félagsmaður vildi fara, en enginn gaf sig fram svo ég fór sjálfur. Þessi fundur var með betri NBR fundum sem ég hef sótt. Ég skoðaði náttúrugripasafnið í Svíþjóð (Naturhistoriska Riksmusemet) og hvernig þeir taka á móti nemendum þar. Það er sorglegt að við eigum ekki slíkt safn og að safnið á Akureyri hafi verið sett í kistur. Einnig skoðaði ég ágætt sædýrasafn, en þar var afmælisveislan haldin laugardagskvöldið.

Það sem við ræddum á fundum okkar norrænu félaganna var hvernig við getum aukið samstarf okkar, t.d. í samningu kennslubóka (hugmyndir að efni og tökum á efninu, áherslum, verkefnum og verklegum æfingum), námskeiðahaldi, kennaraskiptum, nemendaheimsóknum og upplýsingum um hvað gengur vel og hvað illa. Ég nefndi t.d. kaup mín á Zeiss smásjám sem hafa ekki verið annað en til vandræða (ljósgjafinn(dimmerinn) er alltaf að bila og það kostar 30.000.- að gera við hann) og hvernig við getum varast svona fyrirtæki. Við ítrekuðum það að kennarar í hverju landi geta sótt um þátttöku í námskeiðum hvers landsfélags og 2 erlendir kennarar eiga frátekin sæti á þessum námskeiðum

 

6. Umsagnir um námsefnisstyrki

Við fengum til umsagnar nokkrar umsóknir sem við gáfum umsögn eins og best við gátum. Okkur finnst að fleiri líffræðingar mættu skrifa kennsluefni.

 

7. Globe verkefnið www.globe.gov

Stjórn okkar á þessu verkefni hélt áfram. Það eru ennþá 11 skólar skráðir og von er á fleirum. Þetta verkefni er stærsta alþjóðlega skólaverkefnið í heiminum og gefur mikla möguleika að samskiptum milli skóla allstaðar um heim. Við í Flensborg erum nú í tengslum við skóla í Þýskalandi, Póllandi og Tenerife á Kanaríeyjum á grunni GLOBE og höfum heimsótt þá og þeir okkur. Allt á styrk frá Comeníus verkefni Evrópusambandsins. Ég fer með tvo grunnskólakennara og sex nemendur til Króatíu á mikla GLOBE hátíð nú í sumar.

 

8. Globe Arctic verkefnið

Globe Arctic verkefnið er samvinna Globe skóla í löndunum kringum Norðurskautið. Tveir skólar eru frá hverju landi. Skólarnir taka að sér að safna sýnum úr umhverfi skólanna og Norðmenn mæla svo í þeim þrávirk eiturefni og er augum sérstaklega beint að lífrænum efnum sem innihalda bróm (fire retardants), en þau efni virðast vera að safnast upp í villtum lífverum og þá sér í lagi í kringum norðurskautið. Áhrif þessara efna eru lík áhrifum annarra þrávirkra eiturefna, þ.e. minnkandi frjósemi, hækkandi dánartala o.s.frv. Eftir fyrsta veturinn benti flest til að þessi efni væri að finna í sjávarfiskum, meira í Atlantshafi en Kyrrahafi, en lítið í ferskvatnsfiskum. Niðurstöður þessa vetrar eru enn að berast.

Við fundum einu sinni á ári, fyrst var það í Fairbanks í Alaska, svo á Akureyri í fyrra- sumar, en nú ætlum við að hittast í Kiruna og Pajala í norður Svíþjóð. Þetta er fjögurra ára verkefni og gert er ráð fyrir að því ljúki veturinn 2004 – 5.

 

7. Stjórnarfundir

            Við hittumst ekki oft en höfum þeim mun meiri samskipti á tölvupósti og skiptumst á skoðunum þar.

 

8. Ráðstefna um líffræði – nám og kennslu í haust.

Nú eru að verða tíu ár síðan Samlíf og Líffræðifélag Íslands stóðu saman að ráðstefnu um líffræðikennslu á Íslandi. Ellefu árum fyrr stóð Líffræðifélagið fyrir samsvarandi ráðstefnu sem meðal annars leiddi af sér að Samlíf var stofnað. (Það er óvissa um hvenær Samlíf var stofnað. Ég á fundarboð um fund til stofnunar Samtaka líffræðikennara í M.H. 17. maí 1983, en í ráðstefnuriti sem kom út eftir ráðstefnuna 1993 segi ég að stofnfundurinn hafi verið haldinn 23. sept. 1983. Þetta hafði ég úr fundargerðarbók samtakanna sem nú finnst hvergi. Getur einhver frætt mig um þetta?)

Verið er að setja saman undirbúningsnefnd fyrir ráðstefnuna. Ef menn hafa einhver sérstök málefni sem þeir vilja koma fram á ráðstefnunni eru þeir beðnir að koma þeim til undirritaðs.

 

 

Námskeið Samlífs sumarið 2003

Ákveðið var hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands að styrkja aðeins eitt námskeið á vegum hvers fagfélags þetta árið. Þetta er eðlilegt eftir útkomu síðastliðins árs þar sem fjöldi námskeiða var felldur niður, þar á meðal tvö sem við ætluðum að halda. Og allt vegna fárra umsókna.

 

Áhrif áreynslu og þjálfunar á mannslíkamann.

2. – 3. júní 2003

Námskeiðið er um lífeðlisfræði eins og óskir kennara hafa verið um á síðustu námskeiðum. Áhersla verður lögð á starfsemi beinagrindarvöðva, hjarta, blóðrásar og öndunar bæði í hvíld og við áreynslu og hvernig starfsemin aðlagast við þjálfun. Kennt verður með fyrirlestrum, verklegum þáttum, umræðum og spurningum.

Kennarar koma frá Læknadeild H.Í undir forystu Stefáns B. Sigurðssonar prófessors. Námskeiðið nýtist ekki eingöngu líffræðikennurum heldur einnig öðrum þeim kennurum sem fjalla um mannslíkamann, svo sem íþróttakennurum, heilsufræðikennurum o.fl.

Umsókanrfrestur er til 15. maí 2003. Umsóknir þurfa að berast Endurmenntunarstofnun H.Í., fax: 5254000 eða Jóhanni Guðjónssyni, netföng johnjohann@flensborg.is eða johgud@ismennt.is. Fax: 5650491

 

Ef viðtakandi finnst ekki, vinsamlegast endursendið fréttabréfið.

 

Samlíf – Samtök líffræðikennara

Pósthólf 8282

128 Reykjavík