Sumarnámskeið Samlífs hafa verið mjög vel sótt undanfarin ár. Smádýranámskeiðið sem haldið var dagana 10.-12. júní 2015 var engin undantekning þar á. Þátttakendur voru 28 að þessu sinni og komu alls staðar að af landinu, í hópnum voru grunn-, framhalds- og háskólakennarar fullir áhuga á að fræðast um pöddur. Í upphafi námskeiðs fluttu erindi þau Guðmundur Halldórsson skordýrafræðingur hjá Landgræðslu ríkisins og Edda Sigurdís Oddsdóttir jarðvegsfræðingur hjá Skógrækt ríkisins. Þau fóru einnig með hópinn að Mógilsá með það að markmiði að safna smádýrum. Hópurinn var athafnasamur og safnaðist vel þrátt fyrir kalt vor sem orsakaði að smádýrin voru lengi að vakna til lífsins í ár. Frá Mógilsá var haldið upp að Hvanneyri þar sem hópurinn gisti og átti glaða stund. Þar var aðstaða til nánari skoðunar á smádýrum og greiningar.