Reykjavík, 1. desember 2015

Til: Mennta- og menningarmálaráðherra

Efni: Rekstrarstyrkir til faggreinafélaga, MMR15090148

 

Í bréfi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu dagsettu 15. september 2015 segir

„Vakin er athygli á því að ráðuneytið hefur ákveðið að breyta verklagi við veitingu styrkjanna þannig að í framtíðinni verða þeir einungis veittir fyrir verkefni sem fagfélög eru fengin til að vinna fyrir ráðuneytið. t.d. til að fylgja eftir stefnu ráðuneytisins og forgangssviðmiðum.”

Samlíf, samtök líffræðikennara hvetja mennta- og menningarmálaráðherra eindregið til þess að endurskoða þessa ákvörðun. Með þessari breytingu er faglegu sjálfstæði kippt undan faggreinafélögum auk þess sem þátttaka kennara af landsbyggðinni í stjórnarstarfi faggreinafélaganna er útilokuð.

Um leið og Samlíf þakkar fyrri styrki, gott samstaf og ítrekar að stjórnarmeðlimir og félags­fólk sé áfram tilbúið að vinna þau verkefni sem ráðuneytið kallar eftir teljum við mikil­vægt að rekstrarstyrkir séu áfram veittir.

Árlegur styrkur til faggreinafélaga hefur verið 150.000 kr. undanfarin ár, hafði þá verið skorinn niður úr 800.000 kr. (var um tvenn mánaðarlaun kennara á ári) svo nú þegar er búið að setja starfsemi faggreinafélagins ansi þröngan stakk.

Rekstrarstyrkurinn hefur verið notaður til almenns rekstrar fag­félagsins eins og rekstrar­skýrslur sem berast til ráðuneytis árlega sýna. Félagið er sameiningatákn líffræðikennara á öllum skólastigum, félagsfólk er frá leikskólum til háskóla. Félagið kemur að umræðu um kennslu í líffræði, heldur fundi um námskrárvinnu, námsefnisgerð, heldur úti heimasíðu og sendir árleg fréttabréf svo það helsta sé nefnt.

Stjórnarfólk starfar allt í sjálfboðavinnu.

Faggreinafélög hafa borgað ferðastyrki samkvæmt töxtum KÍ fyrir þá framhaldsskólakennara sem starfa fyrir félagið og búa utan höfuðborgar­svæðisins. Með niðurfellingu rekstrarstyrkja er þátttaka þessa hóps úti­lokuð.

Faggreinafélögin þurfa að hafa fjárhagslegt svigrúm til þess að vinna sem gagnrýnir og sjálfstæðir fagaðilar. Fagfélög hafa lagt sig fram um að eiga gott samstarf við yfirvöld menntamála um málefni sem á hverjum tíma þarfnast umræðu, faglegrar rýni og úrvinnslu.

Með bréfi þessu fer stjórn Samlífs fram á að ráðuneytið endurskoði ákvörðun sína varðandi styrkveitingar til faggreinafélaga og hækki styrkinn frekar en leggja hann niður.

Fyrir hönd stjórna Samlíf

Hólmfríður Sigþórsdóttir formaður

Samrit sent:

Aðstoðarmanni Mennta- og menningarmálaráðherra
Ráðuneytisstjóra Mennta- og menningarmálaráðuneytis
Gæðastjóra Mennta- og menningarmálaráðuneytis
Deildarstjóra Stefnumótunar- og þróunardeildar Mennta- og menningarmálaráðuneytis
Deildarstjóra Framhaldsskóladeildar Mennta- og menningarmálaráðuneytis

Kennarasamband Íslands (utgafa@ki.is)

Vísir (ritstjorn@frettabladid.is)

RUV (frettir@ruv.is)