Á DÖFINNI
Næsta sumarnámskeið Samlífs verður haldið dagana 10. – 12. júní og ber yfirskriftina Smádýr. Námskeiðið er ætlað líffræðikennurum á hvaða skólastigi sem er.
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur öðlist aukna þekkingu ásmádýrum, eiginleikum þeirra og hlutverkum, kynnist helstu rannsóknum á smádýrum og sérstöðu þeirra hér á landi og geti miðlað þekkingu sinni áfram til nemenda á grunn- og framhaldsskólastigi. Námskeiðið nýtist einnig til eflingar verklegar kennslu, t.d. rannsókna á smádýrum í verklegum æfingum og útikennslu. Námskeiðið miðar að því að þátttakendur öðlist þá þekkingu og hæfni sem til þarf til að kenna um smádýr í grunn- og framhaldsskólum.
Smádýr gegna lykilstöðu í þurrlendisvistkerfum Jarðar. Smádýr hafa mikil áhrif á mannleg samfélög, t.d. á fæðuöryggi og hringrás næringarefna. Undanfarin ár hefur þekking á smádýrum hér á landi aukist að mun og jafnframt hefur bæst mikið við aðgengilegt efni um þau. Smádýr henta einnig vel til margskonar umhverfistengdrar fræðslu, t.d. vettvangsfræðslu. Námskeið um smádýr fyrir framhaldsskólakennara var síðast haldið fyrir um 20 árum, síðan þá hefur orðið mikil endurnýjun í kennarastétt.
Gerð verður grein fyrir flokkun smádýra og aðferðum við söfnun og greiningu. Niðurstöður ýmissa rannsókna verða kynntar auk þess sem öðrum viðfangsefnum greinarinnar verða gerð skil, einkum þeim sem hafa mikil áhrif á mannlegt samfélag. Þar má nefna skaðsemi smádýra og nytjar af þeim. Lögð verður áhersla á að kynna rannsóknir á smádýrum sem tengjast íslenskri náttúru. Farið verður í vettvangsferð þar sem skoðuð verða smádýrasamfélög og þátttakendum leiðbeint um söfnun, varðveislu og greiningu smádýra.
Kennarar/fyrirlesarar:
Dr. Guðmundur Halldórsson, líffræðingur, rannsóknastjóri Landgræðslu ríkisins. O.fl.
Staðsetning:
Námskeiðið er haldið hjá Landgræðslunni að Keldnaholti og Skógrækt ríkisins.
Námskeiðsgjald (staðfestingargjald) er aðeins 5.000 kr en inni í því eru auk fyrirlestra og rútu í vettvangsferð, veitingar í kaffihléum og hádegisverður alla dagana.
Umsóknarfrestur vegna skráningar: 1. maí 2015.
Skráning fer fram með því að smella hér fyrir skráningu á námskeið. Fjöldi þátttakenda er takmarkaður við 30 manns vegna vettvangsferðar.
Dagskrá námskeiðs – Drög
Miðvikudagur 10. júní | |
09:00-12:30 | Fyrirlestrar. Smádýr – flokkun og greining I. |
12:30-13:00 | Hádegisverður |
13:00-14:00 | Fyrirlestrar. Smádýr – flokkun og greining II. |
14:00-16:00 | Vettvangsferð – söfnun smádýra. Ferð um nágrenni námskeiðsstaðar þar sem þátttakendum er leiðbeint um uppsetningu smádýragildra. |
Fimmtudagur 11. júní | |
09:00-12:30 | Fyrirlestrar. Smádýr í vistkerfum. |
12:30-13:00 | Hádegisverður |
13:00-16:00 | Fyrirlestrar. Smádýr – skaðsemi og nytsemi. |
Föstudagur 12. júní | |
09:00-12:00 | Vettvangsferð. Ferð um nágrenni námskeiðsstaðar. Þátttakendum er leiðbeint um söfnun smádýra af gróðri og með öðrum aðferðum. Gildrur sem áður voru settar niður, tæmdar. |
12:00-13:00 | Hádegisverður |
13:00-16:00 | Úrvinnsla í rannsóknastofu. Leiðbeint um greiningu og varðveislu dýra sem söfnuðust í vettvangsferð. |
Umsjónarmaður/tengiliður: Ester Ýr Jónsdóttir, esteryr (hjá) gmail.com