Fréttabréf
Samlífs
Samtaka líffræðikennara
Ábm. Jóhann Guðjónsson
Janúar 2004
Aðalfundur Samlífs fyrir árið 2003
verður haldinn á Lækjarbrekku við Lækjargötu í Reykjavík
laugardaginn 31. janúar 2004, kl 11.00
Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf
Hvaða áhrif hefur stytting náms til stúdentsprófs á
líffræðinám í grunn- og framhaldsskólum
Samlíf býður til hádegisverðar
Þeir sem óska að vera með eru beðnir að senda
formanni boð í síma 5552119 eða í netfangið: johann@flensborg.is fyrir 28. jan 2004. (vegna hádegisverðarins)
Verkefnin 2003.
Heimasíðan
http://www.ismennt.is/vefir/samlif/index.htm
Sigurlaug Kristmannsdóttir sér um heimasíðuna. Netfangið hennar er <sigurlaug@fa.is> og eru allar sendingar til hennar sem koma þarf á heimasíðuna meira en vel þegnar. Félagsmenn þurfa að sækja heimasíðuna meira, tengja sig við hana og kynna hana fyrir öðrum. Heimasíðan er til lítils nema að menn sæki hana heim og eigi samskipti þar. Ég endurtek það sem ég sagði í vor að ef þið eigið myndir eða annað úr sögu samtakanna, endilega látið okkur hin njóta þess með því að setja það á síðuna. Heimasíðanhttp://www.ismennt.is/vefir/samlif. Þetta fréttabréf fer inn á síðuna og þar eru líka fyrri bréf.
Samvinna við Læknadeild Háskóla Íslands
Við tókum upp samvinnu við Læknadeild Háskóla Íslands um að framhaldskólakennarar myndu semja spurningarnar sem lagðar yrðu fyrir í inntökuprófi deildarinnar fyrir væntanlega læknanema. Samlíf safnaði saman nokkur hundruð spurningum sem við svo seldum Læknadeildinni. Þetta hækkaði veltu Samlífs þó nokkuð, en það er spurning hvort samtökin eigi ekki að taka einhver þjónustugjöld af þessum viðskiptum. – Viðfangsefni aðalfundar?
Könnun á vægi umhverfismenntar í framhaldsskólum
Samlíf tók að sér að vinna könnun fyrir umhverfisráðuneytið (Umhverfisfræðsluráð), sem var gerð í september síðastliðnum. Það voru þó nokkrar umræður um að hverju ætti að spyrja milli Samlífs og umhverfisfræðsluráð. Könnunin var gerð með því að öllum skólameisturum og rektorum skóla á framhaldskólastigi var sent bréf í upphafi september þar sem þeim var bent á heimasíðu þar sem væri athugun á umhverfismennt innan skólans, umfangi hennar og vægi. Ég ítrekaði bréfið í október en samt fékk ég aðeins svör frá 10 af yfir 30 skólum. Ég dróg svo saman helstu niðurstöður og sendi Umhverfisfræðsluráði. Ingibjörg Ólafsdóttir greindi frá niðurstöðum á Líffræðikennsluráðstefnunni í MH 15. nóv 2003.
NBR. Fundur í Finnlandi 12- 15. mars 2004.
NBR (Nordisk Biologisk Råd) er að rísa úr öskustónni eftir nokkuð langan dvala. Við Bogi hittum Dorthe haustið 1996 í Kaupmannahöfn og þau komu nokkur hingað í júni 1998. Ég fór til Röros í Noregi 2000 og Stokkhólms í mars 2003. Nú er boðið til fundar NBR í Finnlandi 12. -15 mars 2004. Þangað þyrftum við að senda mann.
Það sem við ræddum á fundum okkar norrænu félaganna var hvernig við getum aukið samstarf okkar, t.d. í samningu kennslubóka (hugmyndir að efni og tökum á efninu, áherslum, verkefnum og verklegum æfingum), námskeiðahaldi, kennaraskiptum, nemendaheimsóknum og upplýsingum um hvað gengur vel og hvað illa. Ég nefndi t.d. kaup mín á Zeiss smásjám sem hafa ekki verið annað en til vandræða (ljósgjafinn(dimmerinn) er alltaf að bila og það kostar 30.000.- að gera við hann) og hvernig við getum varast svona fyrirtæki. Við ítrekuðum það að kennarar í hverju landi geta sótt um þátttöku í námskeiðum hvers landsfélags og 2 erlendir kennarar eiga frátekin sæti á þessum námskeiðum
Umsagnir um námsefnisstyrki
Við fengum til umsagnar nokkrar umsóknir sem við gáfum umsögn eins og best við gátum. Okkur finnst að fleiri líffræðingar mættu skrifa kennsluefni.
Globe verkefnið www.globe.gov
Stjórn okkar á þessu verkefni hélt áfram. Það eru ennþá 11 skólar skráðir og von er á fleirum. Þetta verkefni er stærsta alþjóðlega skólaverkefnið í heiminum og gefur mikla möguleika að samskiptum milli skóla allstaðar um heim. Við í Flensborg erum nú í tengslum við skóla í Þýskalandi, Póllandi og Tenerife á Kanaríeyjum á grunni GLOBE og höfum heimsótt þá og þeir okkur. Nú í september fór ég ásamt kennara og tveimur nemendum til Þýskalands og dvöldum þar í góðu atlæti í viku. Allt á styrk frá Comeníus verkefni Evrópusambandsins. Ég fór með tvo grunnskólakennara úr Barnaskóla Vestmannaeyja og sex nemendur til Króatíu á mikla GLOBE hátíð nú í sumar.
Globe Arctic verkefnið
Globe Arctic verkefnið er samvinna Globe skóla í löndunum kringum Norðurskautið. Tveir skólar eru frá hverju landi. Skólarnir taka að sér að safna sýnum úr umhverfi skólanna og Norðmenn mæla svo í þeim þrávirk eiturefni og er augum sérstaklega beint að lífrænum efnum sem innihalda bróm (fire retardants), en þau efni virðast vera að safnast upp í villtum lífverum og þá sér í lagi í kringum norðurskautið. Áhrif þessara efna eru lík áhrifum annarra þrávirkra eiturefna, þ.e. minnkandi frjósemi, hækkandi dánartala o.s.frv. Eftir fyrsta veturinn benti flest til að þessi efni væri að finna í sjávarfiskum, meira í Atlantshafi en Kyrrahafi, en lítið í ferskvatnsfiskum. Niðurstöður þessa vetrar eru enn að berast.
Við fundum einu sinni á ári, fyrst var það í Fairbanks í Alaska, svo á Akureyri í fyrrasumar og nú fórum við, fjórir kennarar og tveir nemendur auk mín, í ágúst til Kiruna og Pajala í Norður Svíþjóð. Þetta er fjögurra ára verkefni og gert er ráð fyrir að því ljúki sumarið 2004 með móti í Vesturvogey í Lofóten í Noregi í júní næsta sumar.
Stjórn
Í stjórn sitja nú: Jóhann Guðjónsson Flensborg formaður, Skúli Þór Magnússon MS gjaldkeri, Eva Benediktsdóttir HÍ ritari, Sigurlaug Kristmannsdóttir FÁ og Kristján Sigurðsson Hlíðaskóla meðstjórnendur. Við hittumst ekki oft en höfum þeim mun meiri samskipti á tölvupósti og skiptumst á skoðunum þar. Það verður að segjast að mikið af orku stjórnarinnar fór í undirbúning líffræðikennsluráðstefnunnar.
Ráðstefna um líffræði – nám og kennslu
Við héldum ráðstefnu um líffræðikennslu 14. – 15. nóvember síðastliðinn. Við fengum prófessor frá Indiana í USA til að stýra umræðum fyrri daginn, Craig Nelson. Um fjörtíu manns sóttu fyrirlestra hans og þeir voru afar skemmtilegir og fræðandi. Hann notaði hvorki glærur né skjávarpa heldur talaði meira beint til áheyrienda og lét þá velta fyrir sér hvernig þeir myndu setja upp ákveðin vandamál kennslunnar. Hann hélt svo sannarlega öllum vakandi þá þrjá tíma sem hann fékk. Hann talaði um hvernig honum hefði tekist að bæta árangur nemenda sinna, með því að láta þá vinna saman og velta því fyrir sér hvað þau væru í raun að gera.
Seinni daginn voru svo fyrirlestrar náttúrufræðikenanra um stöðu líffræðinnar í sínum skólum eins og hún er núna. Fyrst var Anna Borg Harðardóttir, leikskólastjóri í Hafnarfirði. Hún sagði frá skólanum, hvernig allt þar gengi eftir reglum Grænfánans, endurnýting, náttúruskoðun, orkusparnaður og endurvinnsla. Þetta var framúrskarandi lýsing. Svo komu kennara úr Vestmannaeyjum og sögðu frá notkun Globe verkefnisins þar og hve miklu það hefði skilað. Náttúruvísindadagurinn 19. maí, þar sem amk þriðjungur íbúa Vestmannaeyja mætti, er dæmi um slíkt. Hrefna Sigurjónsdóttir kom frá Kennaraháskólanum, og því miður var frekar dapurt í henni hljóðið. Aðsókn að líffræði hefur minnkað eftir að hún var felld með eðlis- og efnafræði í raungreinasvið. Bragi Guðmundsson frá Háskólanum á Akureyri lýsti byggingu kennslusviðsins þar. Vægi raungreina í kjarna er miklu meira en í Kennaraháskólanum. Eftir hádegið lýsti Örn Óskarsson frá Selfossi hvernig þeir nota tölvur í náttúrufræðikennslu og Árni Heimir Jónsson úr MR flutti fyrirlestur Mörtu Ólafsdóttir FG vegna veikinda hennar. Eva Benediktsdóttir frá Líffræðiskor HÍ sagði frá því sem er verið að gera innan líffræðinnar í Háskóla Íslands. Í lokin kom Oddný Harðardóttir verkefnisstjóri Menntamálaráðuneytis og Ingibjörg Ólafsdóttir frá Unhverfisráðuneyti og sögðu frá því sem þar er nýjast.
Palborð var svo sett upp þar sem fulltrúar nokkurra stofnana sátu fyrir svörum.
Þrír afburðakennarar í líffræði voru svo heiðraðir og Samlíf veitti þeim smá viðurkenningu fyrir óeigingjarnt starf í þágu líffræði á Íslandi. Þeir eru. Guðmundur Eggertsson sem hefur allra manna mest byggt upp erðafræði innan líffræðiskorar í þrjátíu ár, Halldór Þormar, sem haldið hefur okkur í nánum tengslum við uppgötvanir frumlíffræðinnar um áratugaskeið og að lokum Örnólfur Thorlacius sem kenndi líffræði til margra ára og hefur skrifað flestar kennslubækur sem notaðar eru á framaldsskólastigi. Þeim erum við svo sannarlega alltaf þakklát.
Ef viðtakandi finnst ekki, vinsamlegast endursendið fréttabréfið.
Samlíf – Samtök líffræðikennara
Pósthólf 8282
128 Reykjavík