Fréttabréf 
Samlífs

Samtaka líffræðikennara

Ábm. Jóhann Guðjónsson

Janúar 2005

 

Aðalfundur Samlífs fyrir árið 2004

 verður haldinn á Lækjarbrekku við Lækjargötu í Reykjavík 

laugardaginn 15. janúar 2005, kl 11.30

Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf

Hvernig er hægt að efla starfsemi félagsins?

Samlíf býður til hádegisverðar

Þeir sem óska að vera með eru beðnir að skrá sig á johann@flensborg.is  eða í síma fyrir 13. jan 2005. (vegna hádegisverðarins)

 

Árskýrsla  Samlífs 2004.

A. Aðalfundur og stjórn

 

.     Aðalfundur Samlífs var haldinn á Lækjarbrekku í Reykjavík 31. janúar 2004. Dagskrá var samkvæmt lögum samtakanna. Að venju var ekki vel mætt, aðeins þrettán félagsmenn komu á fundinn.

1.   Skýrsla formanns. Skýrslan hafði verið send út í fréttabréfi svo hún var ekki lesin upp Formaður fjallaði um helstu verkefni ársins 2003. Áberandi var að sókn félagsmanna á námskeið var nánast engin svo þau urðu aðeins eitt, lífeðlisfræði, árið 2003. Þó nokkur vinna var árið 2003 við inntökupróf við Læknadeild Háskóla Íslands. Globe og Globe Arctic verkefnin héldu áfram þetta árið. Við héldum stóra ráðstefnu í nóvember þar sem við fenginn var amerískur fyrirlesari. Annars er vitnað í fréttabrefið sem sent var út fyrir ári.

2.   Umræða um ársskýrsluna. Það kom fram að félagarnir vildu efla heimasíðuna http://www.ismennt.is/vefir/samlif, t.d. með því að menn sendi vefstjóra bestu krækjur sínar auk annars efnis sem þeir eru tilbúnir til að deila með öðrum.

3.   Mikið var rætt um kennslubækur í framhaldsskólum. Margir skólar hafa valið að nota erlendar bækur sem grunn líffræðikennslu á náttúrufræðibrautum. Nú er að koma út erfðafræðibók eftir Mörtu Konráðs og fleiri og vonandi kemur vistfræðibók eftir undirritaðan og Rut Kristinsdóttur áður en langt líður.

4.   Nordisk Biologisk Rad: Fundur verður í Finnlandi. Björgvin Leifsson og Inga           Hrund Gunnarsdóttir gáfu sig fram til þátttöku.

5.   Fjárhagur: Fjárhagur félagsins er ágætur. Mikil velta er m.a. vegna spurninga Læknadeildar, Globe og Globe Arctic,.Meginkostnaður var vegna afmælisráðstefnu Samlífs þar sem við fengum bandarískan fyrirlesara, en þeir sem sóttu fyrirlestra hans voru ánægðir.

6.   Stjórnarkjör: Skúli Þór Magnússon og Kristján Sigfússon gáfu ekki kost á sér til frekari stjórnarsetu. Inga Hrund Gunnarsdóttir, MR, og Sigurlína Gísladóttir, Hlíðaskóla, voru einróma kosnar í þeirra stað.

7.   Lagabreytingar: Engar höfðu borist fyrir fundinn.

8.   Önnur mál: Stytting framhaldsskólans: Menn óttast að þetta leiði til minni þekkingar og skilnings á raungreinum innan framhldskólans.

 

B. NBR ráðstefnan í Finnlandi 12.-14.3 2004 Skýrsla fulltrúa Samlífs, Björgvins R. Leifssonar (Útdráttur)

Lagt var af stað til Finnlands kl. 7:45 þann 11.3. Lent var á Vantaa flugvelli um kl. 15 að staðartíma og var komið í hótel Helka kl. 17.  Kynningarfundurinn hófst kl. 6 í höfuðstöðvum finnsku líffræðikennarasamtakanna (BMOL) og komst ég þá að því að allir hinir NBR fulltrúarnir voru konur, en norska fulltrúa vantaði. Þannig var 1 frá Íslandi, 2 frá Danmörku og 2 frá Svíþjóð auk finnsku fulltrúanna, sem einnig voru tveir.  Það komu þó fleiri Finnar á fundinn.  Setið var til kl. 10 og reynt að ræða um daginn og veginn en eins og kennara er siður snerist umræðan alltaf að starfinu. Eldsnemma á laugardagsmorgni var sest upp í rútu til Kotka. Að lokinni innritun á hótel Sokos var farið á ráðstefnustað.  Þar vorum við véluð á fyrirlestur á finnsku en okkar fundur byrjaði ekki fyrr en eftir hádegi.

Í anddyri skólans voru kynningar á ýmsu líffræðitengdu kennsluefni, allt frá bókum og bæklingum til smásjáa og annarra rannsóknaáhalda.

Á NBR fundinum byrjuðum við á að skiptast á nafnspjöldum og tókum saman netföng og heimasíður samtakanna í hverju landi.  Rætt var um að vegna veikinda norska tengiliðarins væri ekkert samband við Noreg og því væri nauðsynlegt að hafa tvo tengiliði í hverju landi.  Benti ég strax á Jóhann Guðjónsson og sjálfan mig.

Umræðan snerist um eftirfarandi:

1. Að koma á góðu tengiliðakerfi.

2. Staða líffræðikennslunnar í hverju landi kynnt.  Kom þá ýmislegt sameiginlegt í ljós:

            a) Öll löndin hafa nýlega undirgengist námsskrárbreytingar eða þær standa fyrir dyrum.  Sums staðar, t.d. í Finnlandi hefur þetta heppnast nokkuð vel en eins og á Íslandi virkar þetta ekki sem skyldi í öllum skólum, t.d. mjög litlum skólum.

            b) Allir kvörtuðu yfir lélegri undirbúningi nemenda á grunnskólastigi, sérstaklega í stærðfræði en einnig almennt í raungreinum.  Allir virðast horfast í augu við það vandamál að æ færri raungreinamenntaðir grunnskólakennarar fást til starfa og sums staðar, t.d. í Danmörku, eru grunnskólakennaralaunin svo lág að fólk hrökklast úr starfi.

            c) Áhugi var á að halda næstu NBR ráðstefnu á Íslandi.  Sá ég ekkert því til fyrirstöðu og benti á Jóhann í sambandi við skipulagningu.

3. Erlent samstarf af ýmsum toga.

            a) Comenius samstarf.  Áhugi á samstarfi milli finnsks og íslensks skóla.

            b) EMBO (European Molecular Biology Organization)

Á fundinum dreifðu fulltrúar bæklingum sem samtökin í hverju landi gefa út, sagði ég þeim að lítið væri um útgáfu hjá okkur, enda miklu minni samtök.

Að fundi loknum var farið í Maritime, sjávardýrasafn í Kotka.  Kvöldverður var snæddur á hótelinu í boði finnsku samtakanna

 

C. Globe verkefnið: Við héldum áfram með þetta stóra alþjóðlega umhverfisverkefni. Sex íslenskir skólar sendu skýrslur sínar inn á vefinn, globe.gov Þó betur mætti vera eru Íslendingar meðal bestu (miðað við höfðatölu) í skilum á netið. Undiritaður var fenginn sem kennari á vikunámskeið í Druskinninkai í Litháen.í september Þar reyndi á kennslureynslu því mælitækin komu ekki fyrr en daginn sem ég fór. Ég þurfti að fara í byggingavörubúðir til að kaupa plastfötur, snæri, hitamæla, sprayflöskur  o.s.frv. bara til að geta gert eitthvað í áttina við sem ætlað var. Undirritaður sótti auk þess aðalfund Globe international í Boulder, Colorado í júlí og aðalfund Globe Evrópu í Prag í byrjun október.

Í tengslum við Globe verkefnið tókum við þátt í Norðurslóðaverkefni Globe (Globe Arctic) en því lauk á þessu ári með fundi á Lofóten í Noregi.

 

D. Námskeið:

Við héldum ekkert námskeið á þessu ári. Erfitt hefur verið að halda námskeið hve fáir félagsmenn hafa sótt þau. Þarna geta nokkrir þættir verið sem valda. Fyrstan þeirra vil ég telja að umbun í launum fyrir sótt námskeið var afnumin í síðasta kjarasamningi í ársbyrjun 2001. Síðan þá hafa námskeið okkar verið fá og alltaf með lágmark þátttakenda. Skil grunnskólans og framhaldsskólans eru önnur ástæða. Forráðamenn sveitarfélaga vilja, eðlilega, að námskeið þeirra nýtist sem flestum kennurum og séu því ekki eins sérhæf eins og námskeið líffræðisamtaka hljóta að vera Nú í þriðja lagi eru námskeiðin okkar ekki nógu áhugaverð. Nokkur líffræðisamtök hafa komið til okkar og boðið námskeið án kostnaðar, þ.e.a.s. með fyrirtaks fyrirlesara  og vonandi getum við boðið upp á nokkur slík á árinu 2005. Þar er fyrst námskeið um erfðabreyttar lífverur sem verður 11. mars. Þetta er málefni sem allir verða að vita eitthvað um og þarna gefst okkur tækifæri til að heyra sérfræðinga tjá sig um málið og spurja þá. Líka eru óskir um  námskeið fyrir kennara í sameindalíffræði sem vonandi verður hægt að bjóða upp á á haustmánuðum 2005. Samlíf hefur alltaf styrkt kennara utan af landi til að sækja slík námskeið.

Okkar námskeið í sumar er umhverfisfræðinámskeið sem ætlunin er að halda í byrjun júní á Norðurlandi, eins og þau voru fyrir nokkrum árum bæði með grunn- og framhaldsskólakennurum. Við höfum vilyrði fyrir því að þetta eigi ekki að þurfa að kosta neinn annað en tímann sem í námskeiðið.

 

E. Ráðstefna Líffræðifélags Íslands 18. – 20. nóv. 2004.

Stjórn Samtakanna ákvað á fundi sínum 19.október 2004 að styrkja afmælisráðstefnu Líffræðifélagsins  um 100.000.- og jafnframt að fá Endurmenntun H.Í. til að greiða þátttökugjöld félagsmanna. Líka buðu samtökin félagsmönnum til hádegisverðar á seinni degi ráðstefnunnar( aðeins 11 sóttu þann málsverð).

Ég sem formaður þessara samtaka verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum við viðbrögðum félagsmanna við boði á þessa ráðstefnu. Þarna komu fram allir helstu fræðimenn Íslendinga innan líffræðinnar, bæði innan sameinda- og umhverfisfræði (og annarra greina).

 

F. Fjárhagur: Samtökin standa fjárhagslega nokkuð vel þrátt kostnaðarsama þátttöku okkar í ráðstefnum, bæði líffræðifélagsins og okkar eigin á fyrra ári. Lokaniðurstaða reikningsins er jákvæð og þar fyrir utan eiga samtökin varasjóð í hlutabréfum og á bankareikningi 

 

G. Stjórnin: Stjórnina skipa nú Jóhann Guðjónsson, Flensborg, formaður, Sigurlaug Kristmannsdóttir, F.Á, varaformaður og stjórnandi vefsíðu, Eva Benediktisdóttir H.Í ritari, Inga Hrund Gunarsdóttir M.R. gjaldkeri og Sigurlína Gísladóttir, Seljaskóla meðstjórnandi. Ekki hafa verið kosnir varamenn í stjórnina í nokkur ár en nú viljum við bæta þar úr. Því viljum við biðja áhugamenn til að hafa samband við okkur ef þeir eru tilbúnir til að koma móts við stjórnina og vinna með okkur að framhaldi líffræðikennslu á landinu.

 

Ef enginn viðtakandi finnst, vinsamlegast endursendið Fréttabréfið til

Samtaka líffræðikennara, Pósthólf 8282, 128 Reykjavík.