Fréttabréf 
Samlífs

Samtaka líffræðikennara

Ábm. Jóhann Guðjónsson

Janúar 2006

 

Aðalfundur Samlífs fyrir árið 2006

 verður haldinn áVeitingahúsinu Skólabrú í Reykjavík 

laugardaginn 4. febrúar 2006, kl 11.00

Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf

Samlíf býður til hádegisverðar

Þeir sem óska að vera með eru beðnir að senda

 formanni boð í síma 8972119 eða í netfangið:  johann@flensborg.is fyrir 3.feb 2006. (vegna hádegisverðarins) 

 

1. Skýrsla formanns.

Ég hef verið formaður nú í sjö ár og þetta hafa verið mikil breytingaár í fagfélögum innan framhaldsskólanna. Ákveðinn þrýstingur hefur verið um að draga úr faglegri kennslu í framhaldsskólum á móti uppeldistengdum áherslum. Þetta sést hvað best á tillögunum um nýju námskrána sem fylgir styttingu framhaldsskólans. Þar er hlutur raungreina skorinn niður, en greinar sem ég veit ekki til að kenndar séu í háskólum efldar. Síðastliðin 10 ár hafa raungreinar innan annarra brauta en náttúrfræðibrauta í framhaldsskólum verið skornar niður um 50%. Að mínu mati er þetta andstætt yfirlýstum markmiðum stjórnvalda um eflingu raungreina á Íslandi, en ráðherra er ekki sammála því. En pólítík er einstök tík. Ágreiningur var innan stjórnar Samlífs um hvort samtökin ættu að taka þátt í vinnu við gerð nýrrar námskrár sem byggði á styttingu náms í framhaldsskóla vegna þessa niðurskurðar á raungreinum. Við Sigurlaug urðum samt við því að vinna að nýjum námskrám því við óttuðumst að niðurstaðan yrði verri en skyldi ef enginn úr Samlífi væri í þeirri vinnu.

 

2Stjórn Samlífs

 

Aðalfundur Samlífs var haldinn 15. janúar 2005 og þar var kosin ný stjórn samtakanna. Hana skipa: Einar Árnason HÍ, Hilmar J. Hauksson FB, Jóhann Guðjónsson Flb, Sigurlaug Kristmannsdóttir Verzló, Sigurlína Gísladóttir Víkurskóli. Varamenn eru Eiríkur Jensson FB, Marta Ólafsdóttir FG og Valbjörg Jónsdóttir Grunnskólunum á Laugarvatni og Reykholti í Biskupstungum.

 

3. Námskeið Samlífs um umhverfið 12.-14. júní  2005

Samlíf stóð fyrir námskeiði um umhverfisfræði á Stóru-Tjörnum, Ljósavatnsskarði, Þingeyjarsveit dagana 12. til 14. júní síðastliðin. Námskeiðið sóttu 12 manns, bæði framhalds- og grunnskólakennarar. Meginviðfangsefnin voru

1. GLOBE verkefnið og aðferðafræði þess (Jóhann  Guðjónsson og Hildur Einarsdóttir).

2. Náttúra Mývatnsveitar og nágrennis,

a. Vatnsgæði  Skjálfandafljóts,

b. Endur við Helluvað (Aðalsteinn Snæþórsson),

c. Vatnsgæði Mývatns við Kálfastrandarvoga og Bláa lónsins við Bjarnarflag. Hitastig vatnsins var hæst í lóninu en lægst í Mývatni, uppleyst súrefni var svipað í Skjálfandafljóti  og Mývatni en lítið í lóninu, sýrustigið var hæst í Mývatni (rúmlega pH 9) en lægst í lóninu (um pH 7), leiðnin var mest í lóninu en minnst í Skjálfandafljóti, hvergi fannst nítrat en harka fannst í Mývatni.

 

d. Hólasandur: Þar skoðuðum við uppgræðsluverkefni Húsgulls á sandinum. Þeir nota ýmsar plöntutegundir til uppgræðslunnar svo sem lúpínu og birki. Við skoðuðum 8 – 9 ára lúpínurendur en þar er lúpína að dreifa sér út frá sánum röðum (50% sáning). Það vakti athygli okkar hve mikið var af brandyglu, fiðrildalirfu sem étur lúpínuna. Ungar lúpínur voru nánast nagaðar niður í rót. Ljóst er að endurheimt gróðurlendis þarna verður erfið og gerist ekki á fáum árum.

e. Grenjaðarstaður: Við skoðuðum gamla bæinn á Grenjaðarstað.

3. Viðfangsefni Akureyrarseturs Náttúrufræðistofnunar Íslands(Starri Héðinsson).

 

Þetta er fyrsta umhverfisnámskeið Samlífs til nokkurra ára. Við vorum með vinsæl námskeið um umhverfismál nánast árlega í mörg ár. Margir félgsmenn muna námskeiðin á Ströndum 1999, Laugum í Reykjadal, 1998, Hólum í Hjaltadal 1997, Akranesi, 1996, Varmalandi í Borgarfirði 1995, á Stykkishólmi 1993 (munið eftir konunum í barnafatabúðinni) og svo áfram. Þessi námskeið voru alltaf fyrir bæði grunn- og framhaldsskólakennara og tókust vel. Ef einhverjir félagsmenn eiga myndir frá þessum námskeiðum væri gaman að búa til myndaalbúm á heimasíðunni okkar www.lífkennari.is  Það eru komnar nokkrar myndir frá námskeiðum á Alviðru 1990 og Stóru-Tjörnum 1989 en það vantar fleiri. Endilega sendið skannaðar myndir til Sigurlaugar (sigurlaug@verslo.is) ef þið eigið.

 

Það sem mér var erfiðast, sem umsjónarmanni við þetta námskeið, var hve margir virðast tilbúnir til að skrá sig en eru ekki búnir að ákveða hvort þeir ætla að koma. Sent var út bréf til allra skóla, bæði grunn- og framhaldsskóla og kennarar hvattir til að sækja námskeiðið. Það voru um 20 kennarar sem skráðu sig en við höfðum sett 24 sem hámark svo ákveðið var að slá til og halda námskeiðið. Send var út dagskráin um miðjan maí og þátttakendur beðnir að svara sem fyrst hvort þeir stæðu við umsókn sína. Ég var að fá afsvör og staðfestingar alveg fram á síðasta dag, meira að segja hringdi einn kennari í hótelið morguninn sem sem námskeiðið hófst til að afboða sig (var búinn að staðfesta þátttöku sína, svo hann tryggði að enginn gæti komið í hans stað). Það reyndust um það bil fjórðungur þeirra sem sóttu um námskeiðið ekki geta sótt það og mjög margir tóku ákvarðinir sínar á síðustu dögunum áður en námskeiðið hófst. Samlíf lagði í mikinn kostnað við þetta námskeið, bæði undirbúning og hótel. Við töldum að boðið væri upp á góðan kost, fyrsta flokks hótel, kennslu og umhverfisskoðun svo að eftir einhverju væri að slægast.

 

4. NBR

Við tengdum námskeiðið á Stóru Tjörnum fundi Nordisk Biologisk Råd  2005 og þarna komu fulltrúar Danmerkur, Finnlands og Íslands og ræddu samskipti landanna. Mikil áhersla var á fundinum lögð á að halda þessari samvinnu vakandi þó hún sé í lágmarki um þessar mundir. Næsti fundur er ætlaður í Danmörku haustið 2006.

 

5. Kynning á Samlífi

Samkvæmt samþykkt aðalfundar í janúar var prentað kynningarblað á Samlífi. Það kom út í apríl og var sent í alla grunn- og framhaldsskóla í Íslandi. Við höfum fengið nokkra nýja félagsmenn sem rekja má til kynningarbréfsins og nokkrir kennarar hafa haft samband við formann í vor og haust í framhaldi kynningarátaksis. Við eigum enn þriðjung upplagsins og ætlunin er  að senda það út í vor ásamt kynningu nýs námskeiðs í júní.

 

6. Sumarnámskeiðið 2006.

Við höfum sótt um styrk til að halda námskeið um sjófugla og líf í sjó 12. – 14. júní. Ætlunin er að fá fyrirlestra frá Náttúrufræði-, Hafrannsókna-, og Líffræðistofnun á mánudag, fara svo í hvalaskoðun og heimsækja Fræðisetrið í Sandgerði á þriðjudag og vinna svo úr niðurstöðum og búa til verkefni fyrir grunn- og framhaldsskóla sem tengjast þessu efni. Námskeiðið verður haldið í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og er opið öllum kennurum og öðrum áhugamönnum um líffræðikennslu. Takmarka verður fjölda þátttakenda. Umsóknir sendist annað hvort Endurmenntunarstofnun HÍ eða Jóhanni Guðjónssyni (johann@flensborg.is) fyrir 15. apríl. Endilega takið tillit til umræðu um síðasta námskeið fyrr í Fréttabréfinu.

 

7. Námskrár.

Eins og fram kemur fyrr í þessu bréfi tókum við úr stjórn Samlífs, þátt í að búa til nýja námskrá raungreina sem taka á gildi með styttingu framhaldsskólans. Námskrár má lesa á www.namsgatt.is.

 

8. Spurningar fyrir Læknadeild HÍ

Við unnum nokkrar spurningar fyrir Læknadeild HÍ fyrir inntökuprófið, enda líffræði eitt af megin viðfangsefnum prófsins. Við höfum sent mjög margar spurningar á síðastliðnum árum svo þeir telja vart þörf á næstu árum fyrir fleiri.

 

9. Fjárhagur

Fjárhagur samtakanna er traustur. Við eigum nokkra peninga í hávaxtareikningum, sem hægt er að grípa til ef illa viðrar. Samkvæmt vilja aðalfundar voru hlutabréf sem við áttum í Atorku seld í sumar. Reikningar verða kynntir á aðalfundi.

 

Ef viðtakandi finnst ekki, vinsamlegast endursendið fréttabréfið.

 

Samlíf – Samtök líffræðikennara

Pósthólf 8282

128 Reykjavík