Fréttabréf
Samlífs
Samtaka líffræðikennara
Ábm. Jóhann Guðjónsson
Janúar 2007
Aðalfundur Samlífs fyrir árið 2007
verður haldinn á veitingahúsinu Litlu-Brekku (bak við Lækjarbrekku, Lækjargötu) í Reykjavík
laugardaginn 27. janúar 2007, kl 11.00
Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf
Samlíf býður til hádegisverðar
Þeir sem óska að vera með (allir velkomnir) eru beðnir að senda
formanni boð í síma 5552119/8972119 eða á netfangið: johann@flensborg.is fyrir 24.jan 2007. (vegna hádegisverðarins)
1. Sporgöngumanns minnst
Ég verð að byrja þetta bréf með því að minnast góðs félaga, Árna Heimis Jónssonar, líffræðikennara við MR, sem lést siðastliðið sumar. Hann var formaður Samlífs í þrjú ár frá 1989 til 1991, en sat í stjórninni og starfsnefndum á hennar vegum í amk. fimmtán ár. Þá fór hann til Kennarasamtakanna, fyrst HÍK en svo KÍ þar sem hann var lengi formaður stjórnar Verkfallssjóðs. Hann vann mikið fyrir Samlíf og var alltaf reiðubúinn til að sinna hvaða verkefni sem var fyrir líffræðikennara.
2. Skýrsla formanns
Liðið ár hefur verið frekar farsælt fyrir líffræðikennara, þó ég ætli fyrst og fremst að minnast þess sem hefði mátt ganga betur. Kennslubækur: Engin ný kennslubók fyrir líffræði kom út á árinu. Það er orðinn mikill þrýstingur á nýjar bækur til kennslu á framhaldsskólastiginu, bæði í Nát áföngum sem og í framhaldsáföngum (Hve lengi eiga menn að lifa við erlendar bækur?). Er enginn tilbúinn til að gefa sér tíma til að skrifa bók um lífeðlisfræði og tengja hana heilsufræði? Líka er náttúrufræðina í grunnskólanum farið að lengja í nýjar bækur (þær eru 10-15 ára gamlar, sem er langur tími í raungreinum). Nemendafjöldi í bekk: Í haust ákvað menntamálaráðuneytið að fjölga viðmiðunarfjölda á nemendum í raungreinabekkjum úr 20 í 22. Þetta virðist einfalt mál til sparnaðar, en það átti ekki að bæta aðstöðu fyrir verklega kennslu í samræmi við fyrri viðmið, það á að þrengja að sér (Ég hef reyndar engar tilskipanir séð um það hvernig það skuli gert). Þeir skólar sem hafa verið að byggja upp verklega aðstöðu hafa miðað við hámark 20 nemendur í einu (voru áður 14) eiga nú allt í einu að taka við 22 nemendum án þess að aðstaðan breytist. Hafa ráðamenn einhverjar hugmyndir um hvernig strekkja má 10 smásjár í ellefu?. En þetta hlýtur að vera í samræmi við stefnu stjónvalda um að bæta árangur nemenda í raungreinum.
3. Stjórn Samlífs
Aðalfundur Samlífs var haldinn 4. febrúar 2006 og þar var kosin stjórn samtakanna. Hana skipa: Einar Árnason HÍ, Hilmar J. Hauksson FB, Jóhann Guðjónsson Flb, Sigurlaug Kristmannsdóttir Verzló, Sigurlína Gísladóttir Víkurskóli. Varamenn eru Eiríkur Jensson FB, Marta Ólafsdóttir FG og Valbjörg Jónsdóttir Grunnskólunum á Laugarvatni og Reykholti í Biskupstungum.
4. Námskeið Samlífs: Sjávarnytjar; sjófuglar og líf í sjó 12.-14. júní 2006
Sumarnámskeiðið var haldið í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 12. – 14. júní 2006. Fyrsta daginn,12. júní voru fyrirlestrar: Fyrstur kom Konráð Þórisson frá Hafrannsóknarstofnun sem fjallaði um fiskistofna og veiðar við á síðustu öld. Allar voru sammála um ágæti fyrirlestra hans og að okkar ósk sendi hann glærurnar til mín sem sendi þær til þátttakenda. Við getum að sjálfsögðu ekki sett þær inn á heimasíðuna okkar, en ef einhver sendir mér tölvupóst gæti ég laumast til að senda þær. Svo kom Guðmundur A. Guðmundsson fuglafræðingur frá Náttúrufræðistofnun Íslands og fjallaði um sjófugla og þeirra viðkomu. Síðastur var Jörundur Svavarsson prófessor í Háskóla Íslands sem fjallaði um lífríkið í sjónum í kringum Ísland sérstaklega botnlífverur og rannsóknir á þeim.
Annan daginn, 13. júní, fórum til Keflavíkur og þar í hvalaskoðun. Þetta gekk hálfbrösótt því veðrið var ekki hagstætt um morguninn en lagaðist með morgninum, svo sjóferðin var farin um hádegið. Hún var góð þó ekki sæist hvalur (sumir sögðust hafa séð hval þó ég sæi aldrei neinn). Konráð Þórisson var með okkur með háfa til að safna sýnum, bæði af plöntusvifi og dýrasvifi. Eftir góðan hádegisverð á Ránni fórum við vestur í Sandgerði þar sem við skoðuðum sýninguna þar auk þess sýnin sem Konráð safnaði í hvalaskoðuninni. Margar myndir frá þessari ferð er hægt að sjá netsíðu Samlífs www.lifkennari.is.
Lokadaginn 14. júní vorum við í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og bjuggum til verkefni sem hægt er að leggja fyrir nemendur. Þau fjalla um viðfangsefni námskeiðsins, sjávarnytjar. Umsjónarmaður námskeiðsins fór yfir verkefnin og eru þau á heimasíðu Samlífswww.lífkennari.is undir námskeið. Einnig skoðuðu þátttakendur heimasíður sem tengjast verkefninu og mátu þær. Þær eru á heimasíðunni www.lifkennari.is undir námskeið.
Þátttakendur voru almennt mjög ánægðir með námskeiðið þrátt fyrir vandræðin í Keflavík. Því er ætlunin að skipuleggja næsta námskeið á svipaðan hátt.
5. Saga Samlífs
Samlíf-samtök líffræðikennara voru stofnuð 23. september 1983. Fyrsti formaður var Guðrún Svansdóttir. Síðan hafa meira en tíu manns verið formenn samtakanna. Núverandi stjórn er að reyna að safna upplýsingum um starfsemi félagsins í gegnum þessi 24 ár, en mikið af gögnum og fundargerðum virðast vera tapað. Ef einhverjir félagsmenn eiga myndir frá þessum námskeiðum væri gaman að búa til myndaalbúm á heimasíðunni okkar www.lífkennari.is Það eru komnar nokkrar myndir frá námskeiðum á Alviðru 1990, Stóru-Tjörnum 1989, Hallormsstað 1988 auk nýrri námskeiða frá 2005 og 2006 en það vantar fleiri. Endilega sendið skannaðar myndir til Sigurlaugar (sigurlaug@verslo.is) ef þið eigið.
6. Erlend samskipti
Nordisk Biologisk Råd hefur legið í láginni þetta ár. Danir ætluðu að halda fund í haust en af honum varð aldrei. Nokkrir erlendir líffræðikennarar hafa haft samband við undirritaðan og óskað eftir samstarfi, en ég hef lítt getað sinnt því. Það eru samt möguleikar sem kennarar ættu að skoða. Íslendingar (Norðmenn og Lichtenstein) stofnuðu sjóð til að auðvelda tengsl þeirra tíu (12) nýju þjóða sem síðast gengu inn í ESB. Ef skólar frá þeim löndum hafa samband við ykkur geta þeir sótt um styrk í þennan sjóð, til að heimsækja ykkur og visa versa. (Þið getið ekki sótt í þennan sjóð, umsóknin verður að koma frá nýju aðildarlöndunum.) Spyrjist fyrir um þetta hjá Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins. www.ask.hi.is Þetta er ekkert bara fyrir framhaldsskóla heldur lika háskóla, grunnskóla og leikskóla.
Um daginn, 8.des. höfðu þrír líffræðikennarar sem voru hér í heimsókn, samband við mig. Við hittumst svo um kvöldið og ræddum saman undir kvöldverði.
Nú á haustmánuðum var ákveðið að yfirstjórn GLOBE verkefnins yrði flutt frá Samlíf til Landverndar. Við höfum haft verkefnisstjóra verkefnisins í níu ár og margir félagsmanna hafa tekið þátt í starfsemi þess á ýmsan hátt.
7. Kynning á Samlífi
Samkvæmt samþykkt aðalfundar í janúar 2005 var prentað kynningarblað á Samlífi. Það kom út í apríl 2005 og var sent í alla grunn- og framhaldsskóla í Íslandi. Svo var það aftur sent í apríl 2006, ásamt kynningu á sumarnámskeiðinu og við fylltum námskeiðið síðastliðið vor og meir en það. Við höfum fengið yfir tuttugu nýja félagsmenn sem rekja má til kynningarbréfsins. Ætlunin er að prenta það aftur og senda það með upplýsingum um sumarnámskeiðið 2007 á vormánuðum.
8. Sumarnámskeiðið 2007.
Við höfum sótt um styrk til að halda námskeið um plöntur, nytjar þeirra og ræktun 18.-20. júní. Ætlunin er að fá fyrirlesara frá Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri á mánudaginn, fyrsta námskeiðsdaginn, fara svo í plöntuskoðun og plöntugreiningu á þriðjudag og vinna svo úr niðurstöðum á miðvikudaginn og búa til verkefni fyrir grunn- og framhaldsskóla sem tengjast þessu efni. Námskeiðið verður haldið í nýju húsi Flensborgarskólans í Hafnarfirði og er opið öllum kennurum og öðrum áhugamönnum um líffræðikennslu. Takmarka verður fjölda þátttakenda. Umsóknir sendist annað hvort Endurmenntunarstofnun HÍ eða Jóhanni Guðjónssyni (johann@flensborg.is) fyrir 25. apríl 2007
9. Námskrár.
Nú síðastliðið ár hafa félagsmenn Samlífs verið að vinna að endurskoðun námskrár grunnskólans í náttúrufræði. Námskrár má lesa á www.namsgatt.is.
10. Spurningar fyrir Læknadeild HÍ og umsagnir um námsefni
Við unnum nokkrar spurningar fyrir Læknadeild HÍ fyrir inntökuprófið, enda líffræði eitt af megin viðfangsefnum prófsins. Við höfum sent mjög margar spurningar á síðastliðnum árum en þeir telja alltaf þörf fyrir fleiri. Við verðum að vera tilbúin til þess að veita þær. Ein umsögn um nýtt námsefni í kynfræðslu barst okkur og við svöruðum henni.
11. Fjárhagur
Fjárhagur samtakanna er traustur. Við eigum nokkra peninga í hávaxtareikningum, sem hægt er að grípa til ef illa viðrar. Við höfum styrkt málstofur um náttúrfræðikennslu og námskeið um erfðafræði á liðnu ári. Reikningar verða kynntir á aðalfundi. Ef menn eru að gera eitthvað áhugavert í líffræðikennslu er alltaf hægt að sækja um fjárstyrk til félagsins.
Ef viðtakandi finnst ekki, vinsamlegast endursendið fréttabréfið:
Samlíf – Samtök líffræðikennara
Pósthólf 8282
128 Reykjavík