Fréttabréf 
Samlífs

Samtaka líffræðikennara

Ábm. Jóhann Guðjónsson

Janúar 2008

 

Aðalfundur Samlífs fyrir árið 2008

verður haldinn á Veitingahúsinu Litlu Brekku við Lækjargötu í Reykjavík (bak við Lækjarbrekku)

laugardaginn 2. febrúar 2008, kl 11.00

Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf

Samlíf býður til hádegisverðar

Þeir sem óska að vera með eru beðnir að senda

 formanni boð í síma 5552119/8972119 eða í netfangið:  johann@flensborg.is fyrir 28.jan 2008. (vegna fjölda í hádegisverði)

 

 

Árskýrsla formanns Samlífs- samtaka líffræðikennara Stjórnarmaður fellur frá

Nú í júní 2007 dó Hilmar J. Hauksson, sem var einn af fimm stjórnarmönnum Samtaka líffræðikennara. Hilmar var félagsmaður í Samlífi nánast frá upphafi og kom inn í stjórnina sem meðstjórnandi árið 2004. Hann vann samt ýmislegt áður á vegum Samlífs, svo sem hann var í námskeiðsnefnd  árið 2000 og skipulagði námskeiðið það árið. Hilmar var öllum mönnum músíkalskari, spilaði á öll hljóðfæri og munum við hann ef til vill mest sem spilara á samkomum okkar. En hann var líka góður kennari. Hans verður minnst.

Skýrsla stjórnar:

A.Stjórnarkjör

Á aðalfundi Samlífs höldnum 27. janúar 2007 kl: 11.00 á Lækjarbrekku, Reykjavík var ný stjórn kosin. Hana skipa: Jóhann Guðjónsson Flensborg, formaður, Sigurlaug Kristmannsdóttir Verzlunarskólanum, stjórnandi heimasíðu, Hilmar J. Hauksson, FB, ritari, Einar Árnason, HÍ, meðstjórnandi og Ólafur Örn Pálmarsson Laugalækjarskóla, gjaldkeri. Varamenn voru kosnir Marta Ólafsdóttir, FG, og Eiríkur Jensson, FB.

B. Námskeið Samlífs 18.-20.júní 2007

Námskeiðið var kallað Plöntunytjar og fjallaði um plöntur, greiningu þeirra og hvernig má nýta þær í kennslu. Hámark þátttakenda var sett 24 og námskeiðið fylltist fljótt og í allt sóttu um 35 manns um námskeiðið (undir lokin var hætt að skrá á biðlista). Því miður helltust nokkur úr lestinni og fólkið sem var á biðlista var ekki tilbúið með skömmum fyrirvara að koma á námskeiðið, en námskeiðinu luku 21 þátttakandi og voru þau almennt mjög ánægð með það.

Ætlunin hafði verið að halda námskeiðið í Hafnarfirði en raunin var sú að það fluttist norður á Hvanneyri í Borgarfirði. Námskeiðið byrjaði með þrem fyrirlestrum í Flensborg í Hafnarfirði, Eva Þorvaldsdóttir kynnti Grasagarð Reykjavíkur, Guðrún Eva Þorvaldsdóttir kynnti Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og rannsóknir þar, Björn Örvar fjallaði um hvernig erfðabreyttar plöntur eru búnar til og hvernig má nota þær til lyfjaframleiðslu.

Á öðrum degi var Grasagarður Reykjavíkur skoðaður og fórum þaðan  í Borgarnes í hádegismat (m.a. hvannasúpu) og þaðan að Hvanneyri. Plöntusöfnun á mismunandi gróðursvæðum var gerð síðdegis og að morgni síðasta dags og hvernig má þurrka þær.

Gist var að Hvanneyri. Ekki tókst að vinna kennsluverkefni og er það miður.

Þetta námskeið var okkur nokkuð dýrt og þurftum við að leita í varasjóði.

C. Lagabreytingar

Lög Samlífs hafa ekki verið endurskoðuð frá stofnun samtakanna. Það er rétt að færa þau til nútímans. Því er hér tillaga um leiðréttingar

Fyrsta breyting:

Grein 5 hljóðar svo: Stjórn félagsins skipa 5 menn, formaður, gjaldkeri, ritari og tveir meðstjórnendur. Skulu tveir vera af grunnskólastigi, tveir af framhaldsskólastigi og einn af háskólastigi. Stjórnin skipti með sér verkum. Einnig skulu kosnir á aðalfundi fimm varamenn í stjórn og tveir endurskoðendur. Ef atkvæði falla jöfn skal varpa hlutkesti.

Tillaga: er: Greinin verði svo: Stjórn félagsins skipa 5 menn, formaður, gjaldkeri, ritari og tveir meðstjórnendur. Stjórnin skipti með sér verkum. Einnig skulu kosnir á aðalfundi 2 varamenn í stjórn . Ef atkvæði falla jöfn skal varpa hlutkesti.

Ástæða: Til margra ára hefur stjórnin verið skipuð 3 framhaldsskólakennurum, einum grunnskólakennara og einum háskólakennara. Síðastliðin ár hefur háskólakennarinn verið óvirkur sem er slæmt fyrir stjórnina. Eðlilegt er að stjórnin sé skipuð fulltrúm þeirra kennara sem standa að félaginu og aðalfundur á að geta kosið eftir því.

Önnur breyting:

Grein 7 byrjar svo: Aðalfund skal halda árlega í september.

Tillaga: Aðalfund skal halda í upphafi hvers árs. Og í framhaldi af því er breyting á 9.grein um að 15. ágúst verði 1.janúar

Ástæða: Þetta hefur okkur ekki tekist í áratug. og uppgjör bankareikninga eru gerð um áramót

Þriðja breyting:

Ný grein 10. grein sem hljóði svo:

Verði félagið leist upp renna eignir þess og skuldbindingar til Kennarasambands Íslands. Þetta er að ósk Hagstofu Íslands um að einhver verði að erfa félagið verði það lagt niður

D. Kennslubækur

Samlíf reynir eins og áður að fá nýjar kennslubækur. Við höfum fengið tvo þýðendur til að þýða bók Sylviu Mader sem notuð hefur verið í MR,MK og víðar, en fjárstyrk til þess höfum við ekki fengið.

E. Saga Samlífs

Samlíf-samtök líffræðikennara voru stofnuð 23. september 1983. Fyrsti formaður var Guðrún Svansdóttir. Síðan hafa meira en tíu manns verið formenn samtakanna. Núverandi stjórn er að reyna að safna upplýsingum um starfsemi félagsins í gegnum þessi 25 ár, en mikið af gögnum og fundargerðum virðast vera tapað. Ef einhverjir félagsmenn eiga myndir frá þessum námskeiðum væri gaman að búa til myndaalbúm á heimasíðunni okkar www.lífkennari.is  Það eru komnar nokkrar myndir frá námskeiðum á Alviðru 1990, Stóru-Tjörnum 1989, Hallormsstað 1988 auk nýrri námskeiða frá 2005 og 2006 en það vantar fleiri. Endilega sendið skannaðar myndir til Sigurlaugar (sigurlaug@verslo.is) ef þið eigið.

F. Erlend samskipti

Nordisk Biologisk Råd (NBR) hélt fund í október. Ætlunin var að það færu tveir fulltrúar frá okkur á þennan fund, en vegna vandræða með upplýsingar(m.a. um fundarstað) fórum við hvergi. Við í Samlífi getum sótt námskeið á öðrum Norðurlöndum sem haldinn eru á vegum líffræðikennarasamtaka þar. Menn geta leitað upplýsinga á heimasíðum félaganna www.biologforbundet.dk ; www.bmol.fi ; www.bio.no  . Danir eru með mjög áhugaverða ferð til að kynnast gróðri á Kýpur, sérstaklega orkideum, um næstu páska  en hana þarf að panta fyrir 15. janúar 2008 og fjöldi er takmakaður.

G. Kynning á Samlífi

Samkvæmt samþykkt aðalfundar í janúar 2005 var prentað kynningarblað á Samlífi. Það kom út í apríl 2005 og var sent í alla grunn- og framhaldsskóla í Íslandi. Svo var það aftur sent í apríl 2006, Nú er upplagið þrotið svo nú þarf að búa til nýtt kynnigarblað. Ef þið eigið myndir frá námskeiðum eða fundum, endilega sendið mér (johann@flensborg.is) svo við getum skreytt kynningarblaðið nýjum myndum.

H. Sumarnámskeiðið 2008.

Við höfum sótt um styrk til að halda námskeið um líffræði og vistfræði Vestmannaeyja 18.-20.júní 2008. Þar verða fyrirlestrar, skoðunarferðir og verkefni búin til.. Margir góðir fyrirlesarar og leiðsögumenn koma til að fræða okkur svo sem: dr. Soffía Arnbjörnsdóttir kennari við Framhaldskólann í Eyjum og Ingvar A. Sigurðsson forstöðumaður Háskólaseturs á Heimaey. Umsóknir sendist annað hvort Endurmenntunarstofnun HÍ eða Jóhanni Guðjónssyni (johann@flensborg.is) (sími: 5552119/8972119) fyrir 15. apríl. 2008. Fjöldi er takmarkaður við 20 manns og því verðum við að krefjast 5000.- staðfestingargjalds (greiðist inn á reikning Samlífs 0311-26-1676) svo við sitjum ekki uppi með að menn haldi öðrum áhugasömum í óvissu um pláss. Staðfestingargjaldið verður endurgreitt þeim sem koma.

I. Spurningar fyrir Læknadeild HÍ og umsagnir um námsefni

Við unnum nokkrar spurningar fyrir Læknadeild HÍ fyrir inntökuprófið, enda líffræði eitt af megin viðfangsefnum prófsins. Við höfum sent mjög margar spurningar á síðastliðnum árum en þeir telja alltaf þörf fyrir fleiri. Við verðum að vera tilbúin til þess að veita þær.

J Fjárhagur

Fjárhagur samtakanna er traustur. Við eigum nokkra peninga í hávaxtareikningum, sem hægt er að grípa til ef illa viðrar. Reikningar verða kynntir á aðalfundi.

 

Hafnarfirði í janúar 2008

Jóhann Guðjónsson

formaður Samlífs- samtaka líffræðikennara

 

Ef viðtakndi finnst ekki gjörið svo vel að endursenda bréfið til Samlífs – samtaka líffræðikennara, Pósthólf 8282, 128 Reykjavík