Fréttabréf
Samlífs
Samtaka líffræðikennara
Ábm. Jóhann Guðjónsson
Janúar 2009
Aðalfundur Samlífs –
samtaka líffræðikennara fyrir árið 2009
verður haldinn á veitingahúsinu Lækjarbrekku, Lækjargötu í Reykjavík
laugardaginn 21. feb. 2009, kl 11.00.
Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf, umræður
Samlíf býður til hádegisverðar
Þeir sem óska að vera með (allir líffræðikennarar meira en velkomnir) eru beðnir að senda
formanni boð í síma 5552119/8972119 eða á netfangið: johann@flensborg.is fyrir 16. Feb. 2009. (vegna fjölda í matnum)
1. Skýrsla formanns
Líffræðin hefur eins og aðrar raungreinar lent í niðurskurði sem fag á öllum skólastigum á liðnum árum. Fyrir tíu árum voru raungreinar að lágmarki 12 einingar af stúdentsprófi annarra en náttúrubrautarnema en nú stefnir allt í að þær verði aðeins 6. Yfirmenn skólamála á Íslandi virðast ekki átta sig á því fyrir hvað raunvísindi standa. Að þau séu grunnur að okkar menningu og velsæld. Við sem kennum raunvísindi eigum undir högg að sækja, kennsla okkar er dýrari en að kenna sögu eða önnur bókleg fög, vegna þess að við verðum að hafa eitthvað verklegt, skoða í smásjá, fara út í feltið, gera tilraunir o.s.frv. Þennan nauðsynlega þátt raungreinakennslu virðast yfirmenn okkar ekki skilja og því skulum við vinna með svo stóra hópa að nemendur komist ekki að í tilraunatímum, skoðunarferðir má ekki borga o.s.frv. Ég tel að fækkun nemenda í raungreinanám í háskólum sé skýrt dæmi um þessa öfugþróun. Hvernig eigum við að bregðast við? Hvað getum við gert?
2. Aðalfundur Samlífs 2. febrúar 2008
Aðalfundur Samlífs var haldinn 2. febrúar 2008 og þar var kosin stjórn samtakanna. Hana skipa: Arnar Pálsson HÍ, Ester Ýr Jónsdóttir FSu, Jóhann Guðjónsson Flb, Ólafur Örn Pálmarsson Laugalækjarskóla, Soffía Arnþórsdóttir, Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum. Varamenn eru Eiríkur Jensson FB og Marta Ólafsdóttir FG
Á aðalfundinum voru líka samþykktar breytingar á lögum samtakanna. Helstu breytingarnar voru að ekki skal lengur ákvarða í lögum af hvaða skólastigi stjórnarmenn eru. Aðalfund skal halda í upphafi árs og verði félagið gert upp skulu eignir þess renna til Kennarasambands Íslands
3. Námskeið Samlífs 2008: Vistfræði Vestmannaeyja
Ætlunin var að halda árlelegt sumarnámskeið Samlífs í Vestmannaeyjum. Skoða og kynnast náttúru Eyjanna undir góðri leiðsögn. Við vorum búinn að fá góða leiðsögumenn, panta gistingu, tryggja fjármagn, en svo létu kennarar ekki sjá sig. Niðurstaðan var sú að námskeiðinu varð að aflýsa. Hér gildir eins og alltaf að fjöldinn sem skráður er á lokadegi ræður hvert framhaldið verður, ekki einhverjir sem koma seinna og vilja vera með. Þetta var leiðinlegt, en ég sem framkvæmdastjóri námskeiðsins, gat ekki beðið hótel, fyrirlesara og aðra að bíða; það hljóti að koma fleiri.
4. Námskeiðið næsta sumar: Fimmtudaginn 18. júni-laugardagsins 20. júní.
Námskeið Samlífs næsta sumar verður um landspendýr á Íslandi. Þetta er hugsað sem þriggja daga námskeið, þannig að á fyrsta degi verði fyrirlestrar, sömuleiðis fyrir hádegi annars dags, en svo verði farið í skoðunarferð og augum beint að kanínum í Öskjuhlið. Þriðji dagurinn verði svo notaður til að búa til nemendaverkefni um landspendýrin. Verkefnin verði svo sett á heimasíðuna okkar www.lifkennari.is þar sem þau verða öllum tiltæk. Námskeiðið er ætlað öllum líffræðikennurum á hvaða skólastigi sem þeir eru. Umsóknarfrestur er til 22. maí 2009 og hve margir hafa sótt um þá ræðst hvort námskeiðið verður haldið eður ei. Hægt er að sækja um námskeiðið í netfang formanns johann@flensborg.is eða hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Við höfum ekki fengið endanlega ákvörðun um styrk frá Endurmenntun en vonandi fáum við það sem um var beðið.
5. Heimasíðan okkar www.lifkennari.is
Við höfum nú í nokkur ár verið með heimasíðu. Sigurlaug Kristmannsdóttir setti hana upp og hún er mjög aðgengileg. Nú hefur Ester Ýr Jónsdóttir við FSu á Selfossi tekið við. Þarna eru aðgengilegar upplýsingar um alla starfsemi félagsins og ýmiss verkefni sem henta öllum skólastigunum. Það mættu fleiri sækja síðuna heim. Þarna er eftir mörgu að slægjast.
6. Saga Samlífs
Samlíf-samtök líffræðikennara voru stofnuð 23. september 1983. Fyrsti formaður var Guðrún Svansdóttir. Síðan hafa meira en tíu manns verið formenn samtakanna. Núverandi stjórn er að reyna að safna upplýsingum um starfsemi félagsins í gegnum þessi 25 ár, en mikið af gögnum og fundargerðum virðast vera tapað. Ef einhverjir félagsmenn eiga myndir eða sögur frá þessum námskeiðumog fundum, endilega sendið okkur, johann@flensborg.is eða esteryr@gmail.com Við erum að búa til myndaalbúm á heimasíðunni okkarwww.lifkennari.is Það eru komnar nokkrar myndir frá námskeiðum á Alviðru 1990, Stóru-Tjörnum 1989, Hallormsstað 1988 auk nýrri námskeiða frá 2006 og 2007 en það vantar fleiri. Sérstaklega sakna ég mynda frá Ströndum 1996, Hólum í Hjaltadal 1997 (Drangey) og Laugum í Reykjadal.
7. Umsagnir um styrki til námsefnisgerðar
Eitt af skylduverkum Samlífs er að gefa álit á umsóknum sem menntamálaráðuneytinu berast um styrki til námsefnisgerðar. Nú bárust okkur fjórar slíkar umsóknir. Nokkrar þeirra voru svo illa unnar og óljósar að við treystum okkur ekki til að mæla með þeim. Ein var þó afar áhugaverð, um vistfræði Íslands, sem við gáfum okkar fyllstu meðmæli. Eigi veit ég svo hvað varð um þessar umsóknir eða hverjir fengu styrki.
8. Erlend samskipti
Nordisk Biologisk Råd , Samtök líffræðikennara á Norðurlöndunum, hélt fund í Stokkhólmi í byrjun september. Af okkar hálfu sóttu hann Ólafur Örn Pálmarsson og Soffía Arnþórsdóttir. Að þeirra sögn var fundurinn áhugaverður og við ættum að efla samstarfið. Hér eru nokkrar heimasíður norrænu samtakanna en þar er margt að finna sem við getum nýtt okkur í okkar starfi; www.emu.dk dönsk fagfélög; www.bio.no norskt fagfélag; www.biologforbundet.dk fagfélag líffræðikennara í Danmörku.
9. Ár Darwins 2009.
Í seinni hluta ágúst fór ég á fund áhugasamtaka um arfleifð Darwins, en á árinu 2009 eru tvö merkisafmæli hans. 200 frá því hann fæddist og 150 ár frá útkomu bókar hans um uppruna tegundanna. Samlíf ákvað ásamt Hinu íslenska náttúrfræðifélagi að vera með í að halda uppá þessi merku tímamót. Við stöndum að ritgerðarsamkeppni framhaldsskólanema um Darwin og þróunarkenningu hans og veitum verðlaun fyrir bestu ritgerðirnar.
10. Spurningar fyrir Læknadeild HÍ og umsagnir um námsefni
Samlíf fékk ósk um að búa til 80 spurningar fyrir Læknadeild HÍ fyrir inntökuprófið síðastliðið vor, enda líffræði eitt af megin viðfangsefnum prófsins. Við vorum 5 sem sömdum þessar spurningar, en þar mega gjarnan koma fleiri að. Mér finnst óþægilegt að vita ekki hvaða spurningar lentu á endanum á sjálfu prófinu og líka hvernig þær gengu. Mér finnst að Læknadeildin eigi að taka saman árangur spurninganna og senda okkur. Heyrst hefur að hæsta skor svarenda sé 70% sem segir að prófið er of erfitt og því nánast tilviljun hvort nemendur sem eru á mörkunum séu þeir sem deildin vill fá.
11. Fjárhagur
Fjárhagur samtakanna er traustur, þrátt fyrir alla kreppu. Við rukkum ekki árgjald (það var of dýrt) en lifum á styrkjum. Við eigum nokkra peninga í hávaxtareikningum, sem hægt er að grípa til ef illa viðrar. Við höfum styrkt málstofur um náttúrufræðikennslu, ritgerðir um þróunarkenningu Darwins, námskeiðin okkar og námskeið um erfðafræði á liðnum árum. Reikningar verða kynntir á aðalfundi.
Ef viðtakandi finnst ekki, vinsamlegast endursendið fréttabréfið:
Samlíf – Samtök líffræðikennara
Pósthólf 8282
128 Reykjavík