Fréttabréf 
Samlífs

Samtaka líffræðikennara

Ábm. Jóhann Guðjónsson

Janúar 2010

 

Aðalfundur Samlífs – 

samtaka líffræðikennara fyrir árið 2010

 verður haldinn á veitingahúsinu á Lækjarbrekku, Lækjargötu í Reykjavík 

laugardaginn 27. febrúar 2010 kl: 11.00

Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf. Ólafur Halldórsson kynnir nýja bók í almennri líffræði.

Samlíf býður til hádegisverðar

Þeir sem óska að vera með (allir líffræðikennarar eru meira en velkomnir) eru beðnir um að senda

 formanni boð í síma 5552119/8972119 eða á netfangið:  johann@flensborg.is fyrir 23.febrúar 2010. (vegna fjölda í matnum)

 

  1. 1.     Skýrsla formanns

Undirritaður hefur verið formaður Samlífs – samtaka líffræðikennara síðan 1998 og var búinn að vera í stjórninni 7 ár þar áður, m.a gjaldkeri í nokkur ár. Menn mega ekki verða rótgrónir í svona félagi, og því er kominn tími til að ég dragi mig til baka. Að ósk stjórnarmanns mun ég sitja árinu lengur í stjórninni. Á þessum nærri tuttugu árum hefur margt breyst í skólunum. Námskrár hafa komið og farið, stundum höfum við fengið að vera með í gerð þeirra, en oft hafa einhverjir æðri menn þurft að fara yfir okkar tillögur og þá oftast ekki til bóta. Kennslubækur og gerð þeirra hafa verið eitt af meginverkefnum og því miður hefur okkur ekki gengið vel í þeim efnum. Bækurnar eru gamlar og að ýmsu leiti úreltar og því hafa margir leitað til erlendra bóka, sem ég tel miður. Líffræðinámskeið hafa verið aðall þessara samtaka og mjög mörg góð námskeið hefur félagið haldið. Áhugi á þeim hrundi eftir kjarasamninga 2001 og það hefur tekið okkur mörg ár að byggja upp áhugann aftur, en námskeiðið síðastliðið vor gefur góða von, þá mættu 40 mannns og nutu góðra fyrirlestra og samveru með félögum sínum. Nýliðin ár höfum við reynt að styrkja ýmsar ráðstefnur og fundi sem fjalla um líffræðileg málefni og líffræðikennslu, bæði með fjárframlögum og hvatningu til okkar félaga að sæka þessa viðburði. Áherslur ríkisvaldsins hafa oft valdið okkur heilabrotum því á einum stað er bent á nauðsyn endurmenntunar en á öðrum er boðaður niðurskurður til endurmenntunar.

Að minni ósk vildi ég sem gjaldkeri, að samtökin geymdu fé sitt í hlutabréfum, en á einum aðalfundi var fundið að því, því svona félag ætti ekki að taka þátt áhættufjárfestingum, svo hlutabréfin voru seld og því við eigum enn þessa peninga og samtökin standa sterkari en áður.

Ég stjórnaði Globe verkefninu (alþjóðlegt umhverfisverkefni, það stærsta í heimi) í nafni Samlífs í tíu ár. Þó ég segi sjálfur frá gekk þetta vel. Kennarar fóru ásamt nemendum til ýmisra landa, svo sem Alaska, Svíþjóðar og Króatíu. Ég var búinn að fá 5% allra grunn- og framhaldsskóla til að taka þátt.(www.globe.com) en það er erfitt að fá fjölmiðla til að líta til skóla og hvað þeir eru að gera. Menntamálaráðuneytið skar niður fjárveitingarnar og því sagði ég því upp 2007. Landvernd tók við og hafa ekkert gert.

2Aðalfundur Samlífs  21. febrúar 2009

Aðalfundur Samlífs var haldinn 21. febrúar 2009 og þar var kosin stjórn samtakanna. Endurkosnir voru: Arnar Pálsson HÍ, Ester Ýr Jónsdóttir FSu, Jóhann Guðjónsson Flb og Ólafur Örn Pálmarsson Laugalækjarskóla. Ný í stjórnina kom Rúna Björk Smáradóttir  FÁ. Varamenn eru Hildur HalldórsdóttirMÍ, Eiríkur Jensson FB  og Ólafur Halldórsson VÍ.  

3. Námskeið Samlífs 2009: Landspendýr á Íslandi

Þetta námskeið er eitt allra besta námskeið sem Samlíf hefur haldið í áratug. Ætlunin var að takmarka þáttakendur við 24 en þegar yfir 40 manns sóttu um námskeiðið var ákveðið að flytja það í stærri fyrirlestrarsal svo allir kæmust. Þessir 40 umsækjendur sóttu svo námskeiðið sem er ólíkt því sem verið hefur, þar sem fjöldi skráðra hefur ekki mætt til leiks. Námskeiðið var haldið í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði. Við fengum afburðagóða fyrirlesara sem fluttu erindi um refi ( Páll Hersteinsson prófessor), minka (Róbert Arnar Stefánsson, Náttúrustofu Vesturlands), hreindýr (Skarphéðinn G. Þórisson  Náttúrustofu Austurlands) og kanínur (Guðbjörg Ásta Stefánsdóttir Framhaldsskóla Snæfellsness), og daginn eftir var farið í vettvangsskoðun í Öskjuhlíðina í Reykjavík og leitað að kanínum, sem fundust, eins og má sjá á www.lifkennari.is . Eftir hádegið kom svo fyrirlestur um mýs sem Ester Rut Unnsteinsdóttir, Melrakkasetri Íslands, Súðavík flutti. Námskeiðinu lauk með verkefnavinnu í Flensborg  Afrakstur þeirrar vinnu má finna á heimasíðu okkar www.lifkennari.is

4. Námskeiðið næsta sumar: Föstudaginn 18. júni-sunnudagsins 20. júní 2010

Námskeið Samlífs næsta sumar verður um fuglana í nágrenni okkar. Þetta er hugsað sem þriggja daga námskeið, þannig að á fyrsta degi verði fyrirlestrar, sömuleiðis fyrir hádegi annars dags, en svo verði farið í skoðunarferð og augum beint að fuglum í Borgarfirði. Þriðji dagurinn verði svo notaður til að búa til nemendaverkefni um fuglana, svo sem garðfuglakönnun og fuglana í nágrenni okkar. Verkefnin verða svo sett á heimasíðuna okkar  www.lifkennari.is þar sem þau verða öllum tiltæk. Námskeiðið er ætlað öllum líffræðikennurum á hvaða skólastigi sem þeir eru. Umsóknarfrestur er til 22. maí 2010 og af hve margir hafa sótt um þá, ræðst hvort námskeiðið verður haldið eður ei.  Hægt er að sækja um námskeiðið í netfang formanns johann@flensborg.is eða hjá Endurmenntun Háskóla Íslands https://secure.endurmenntun.is/Forsida/Skraning .

5. Heimasíðan okkar www.lifkennari.is

Við höfum nú í nokkur ár verið með heimasíðu. Ásgrímur Guðmundsson bjó  til heimasíðu fyrir félagið. Síðan var  opnuð  10. maí árið 2000 og  Ásgrímur sá um að setja inn á hana efni í tvö ár, en þá tók Sigurlaug  Kristmannsdóttir  við. Hún  breytti henni og tók upp slóðina www.lifkennari.is  Síðan er mjög aðgengileg. Nú hefur Ester Ýr Jónsdóttir við FSu á Selfossi tekið við. Þarna eru aðgengilegar upplýsingar um alla starfsemi félagsins og ýmiss verkefni sem henta öllum skólastigunum. Það mættu fleiri sækja síðuna heim. Þarna er eftir mörgu að slægast. Megin kostnaður við starfsemi samtakanna er að halda þessari síðu opinni.

6. Saga Samlífs

Samlíf-samtök líffræðikennara voru stofnuð 23. september 1983. Fyrsti formaður var Guðrún Svansdóttir. Síðan hafa meira en tíu manns verið formenn samtakanna. Núverandi stjórn er að reyna að safna upplýsingum um starfsemi félagsins í gegnum þessi 25 ár, en mikið af gögnum og fundargerðum virðast vera tapað. Ef einhverjir félagsmenn eiga myndir eða sögur  frá þessum námskeiðum og fundum, endilega sendið okkur, johann@flensborg.is eða esteryr@gmail.com Við erum að búa til myndaalbúm á heimasíðunni okkar www.lífkennari.is  Það eru komnar nokkrar myndir frá námskeiðum á Alviðru 1990, Stóru-Tjörnum 1989, Hallormsstað 1988 auk nýrri námskeiða frá 2006, 2007 og 2009  en það vantar fleiri. Sérstaklega sakna ég mynda frá Ströndum 1996, Hólum í Hjaltadal 1997 (Drangey) og Laugum í Reykjadal.

7. Umsagnir um styrki til námsefnisgerðar

Eitt af skylduverkum Samlífs er að gefa álit á umsóknum sem menntamálaráðuneytinu berast um styrki til námsefnisgerðar. Nú bárust okkur fimm slíkar umsóknir. Fimm kennarar mátu umsóknirnar og voru þær umsagnir sendar menntamálaráðuneytinu nú um áramótin.

8. Erlend samskipti

Nordisk Biologisk Råd , Samtök líffræðikennara á Norðurlöndunum, hélt ekki neinn fund á árinu, sem er bagalegt því  við erum einangruð hér á landi og erum oft nokkrum árum á eftir að tileinka okkur það nýjasta sem er að gerast í líffræðikennslu í heiminum. Hér eru nokkrar heimasíður norrænu samtakanna en þar er margt að finna sem við getum nýtt okkur í okkar starfi;www.emu.dk dönsk fagfélög; www.bio.no  norskt fagfélag; www.biologforbundet.dk   fagfélag líffræðikennara í Danmörku.

9. Ár Darwins 2009.

Í seinni hluta ágúst fór ég á fund áhugasamtaka um arfleifð Darwins, en á árinu 2009 eru tvö merkisafmæli hans. 200 ár frá því hann fæddist og 150 ár frá útkomu bókar hans um uppruna tegundanna. Samlíf ákvað ásamt Hinu íslenska náttúrufræðifélagi að vera með í að halda uppá þessi merku tímamót. Við stóðum að ritgerðarsamkeppni framhaldsskólanema um Darwin og þróunarkenningu hans og veitum verðlaun fyrir bestu ritgerðirnar.

10. Spurningar fyrir Læknadeild HÍ og umsagnir um námsefni

Samlíf fékk ósk um að búa til 65 spurningar fyrir Læknadeild HÍ fyrir inntökuprófið síðastliðið vor, enda líffræði eitt af megin viðfangsefnum prófsins. Við vorum 5 sem sömdum þessar spurningar, en þar mega gjarnan koma fleiri að. Ekki er undirrituðum kunnugt um gengi spurninganna. Læknadeild HÍ verður að birta árangur spurninganna og gengi prófsins, þetta eru opinber gögn og því ættu þau að liggja frammi.

11. Stuðningur Samlífs við starfsemi tengda líffræðinni og kennslu innan hennar.

Samlíf styrkti fjárhagslega ýmsa starfsemi sem tengist líffræðikennslu þó samtökin ættu ekki beina þátttöku. Þar er helst að nefna Ár Darwins og Líffræðiráðstefnuna 6.-7. nóv síðastliðin. Slíkar ráðstefnur eru okkar lifibrauð. Ef þú sem líffræðikennari villt halda þér við í faginu er þátttaka í svona ráðstefnu nauðsynleg. Þú verður að vita hvað er að gerast í líffræðirannsóknum á Íslandi og öðrum löndum. Kennslubækurnar sem við höfum eru áratugagamlar eða skrifaðar á erlendum tungumálum, þar sem Íslands er að engu getið. Því verðum við að efla kynningu á því sem íslenskir líffræðingar eru að gera. Því er eðlilegt að við styrkjum kynningar á líffræðirannsóknum á Íslandi. Darwin og skrif hans umbylltu hugsun almennings til náttúrunnar. Hugsun hans er enn okkar hugsun, eflum hana. 

Við höfum líka notað póstlista okkar til að senda ýmsar upplýsingar um starfsemi þeirra félaga sem okkur hefur fundist tengjast beint markmiðum samtakanna.

11. Fjárhagur

Fjárhagur samtakanna er traustur, þrátt fyrir alla kreppu. Við rukkum ekki árgjald en lifum á styrkjum.  Við eigum nokkra peninga í hávaxtareikningum, sem hægt er að grípa til ef illa viðrar. Ársreikningur  samtakanna verður kynntur á aðalfundi.

Ef viðtakandi finnst ekki, vinsamlegast endursendið fréttabréfið:

 

Samlíf – Samtök líffræðikennara

Pósthólf 8282

128 Reykjavík