Ólympíukeppni í líffræði hefur verið haldin 27 sinnum. Fyrsta keppnin var í Tékkóslóvakíu árið 1990 en Ísland tók fyrst þátt árið 2016, þegar fjórir keppendur fóru til Víetnam. Nú hefur lið fyrir ólympíuleikana á Bretlandi í sumar verið valið eftir forkeppnir síðla vetrar.

Ólympíuleikarnir eru keppni fjögurra manna liða frá 68 löndum og fara þeir fram við Háskólann í Warwick í júlímánuði. Um er að ræða vikulanga keppni þar sem skiptast á fræðileg próf og verklegar æfingar, og skoðunarferðir og skemmtidagskrá. Val á keppendum fyrir landslið í líffræði fyrir ólympíuleika byggist á forkeppni á landsvísu. Hérlendis var nemendum í framhaldskólum boðið að taka krossapróf, og nú í janúar þreyttu 180 nemar úr 8 skólum prófið. Efstu fjórtán var boðið í æfingabúðir um miðjan mars þar sem unnar voru verklegar æfingar og tekin próf í framkvæmd og fræðum.

Nemendurnir sem þátt tóku í æfingabúðunum voru Mikael Snær Gíslason úr Fjölbrautarskóla Norðvesturlands, Sverrir Kristinsson úr Flensborgarskólanum í Hafnarfirði, Védís Mist Agnadóttir, Hera Gautadóttir, Hafdís Haraldsdóttir, Þórbergur Bollason, Helgi Sigtryggsson, Margrét Vala Þórisdóttir, Þorsteinn Freygarðsson, Ágúst Pálmason Morthens, Garðar Ingvarsson og Viktoría Sif Haraldsdóttir úr Menntaskólanum í Reykjavík og Bjarni Ármann Atlason og Viktor Ingi Ágústsson úr Verslunarskóla Íslands.

Æfingarnar snérust um að þynna lausn með DNA, að hlaða sýnum á gel og að vinna með skerðibútakort. Skriflega prófið var úr áherslusviðum ólympíuleikanna 2017, sem eru plöntulíffræði, lífefnafræði og þroskunar- og lífeðlisfræði.

Val á landsliðinu byggði á stigafjölda úr fræðilegum prófum og verklegum æfingum ásamt mati á vinnubrögðum í verklegum æfingum. Þau fjögur sem fara til Warwick á ólympíuleikana í líffræði fyrir Íslands hönd eru Bjarni Ármann Atlason (VÍ), Hera Gautadóttir (MR), Mikael Snær Gíslason (FNV) og Védís Mist Agnadóttir (MR).

Vefsíða ólympíuleikana í líffræði 2017.
http://www.ibo2017.org/


Skipulag keppninar og þjálfunar er í höndum
Samlífs, samtaka líffræðikennara, með stuðningi frá Líffræðistofu Háskóla Íslands. Skipulagsnefndina skipa Jóhanna Arnórsdóttir (MR), Þórhallur Halldórsson (FÁ), Karen Pálsdóttir (FB), Sigríður Rut Franzdóttir og Arnar Pálsson (bæði við HÍ).

Leiðbeinendur í verklegum æfingum voru doktorsneminn Diahann Atacho og nýdoktorinn Kalina H. Kapralova.

Texti – Arnar Pálsson http://luvs.hi.is/frettir/2017_04_08/landslid_fyrir_olympiuleikana_i_liffraedi