Fréttabréf 
Samlífs
Samtaka líffræðikennara

Ábm. Jóhann Guðjónsson

Nóvember 1999

Samlíf – samtök líffræðikennara.

Aðalfundur

Aðalfundur Samlífs verður haldinn þann 8. desember í Kennarahúsinu við Laufásveg, kjallara.

Dagskrá:

1. Venjuleg aðalfundarstörf

2. Fulltrúi umhverfisdeildar Landsvirkjunar ræðir umhverfisstefnu stofnunarinnar og Fljótsdalsvirkjun

3. Önnur mál.

Félagar fjölmennið.

 

Skýrsla stjórnar 1998 –1999.

Aðalfundur 1998.

Aðalfundur var haldinn þann 26. nóv 1998 í Kennarahúsinu. Formaðurinn Rut Kristinsdóttir lét þar af störfum. Nýr meðlimur í stjórnina í hennar stað var kosinn Ásgrímur Guðmundsson í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Á aðalfundinum var rætt um þau mál sem helst sneru að félaginu á þeim tíma.

Stjórnin

Stjórnin hélt sinn fyrsta stjórnarfund 16. janúar 1999 á Lækjarbrekku. Þar skipti ný stjórn með sér verkum og var Jóhann Guðjónsson kosinn formaður, Ásgrímur Guðmundsson gjaldkeri, Eva Benediktsdóttir ritari en Skúli Magnússon og Kristján Sigurðsson eru meðstjórnendur. Stjórnin hélt aðeins 3 bókfærða stjórnarfundi en átti með sér samskipti bæði símleiðis og með tölvupósti.

Námskrárvinna.

Helsta starf þessa árs var að ljúka námskrárvinnunni sem síðasta stjórn hafði séð um. Hún hafði fengið Þóri Haraldsson í Menntaskólanum á Akureyri sem fulltrúa samtakanna í námskrárnefnd menntamálaráðuneytisins. Þórir gekk út úr þessari vinnu þar sem ekki lá fyrir hve margar einingar yrðu til ráðstöfunar í líffræði í svokölluðum náttúrufræðipakka sem er skylda á öllum bóknámsbrautum til stúdentsprófs. Sú ákvörðun kom ekki fyrr en í janúar og kom þá í ljós að einn þriggja eininga áfangi (NÁT103) yrði líffræði. Sneri Þórir þá aftur til starfa. Þó nokkur umræða varð um hvað inni þeim áfanga ætti að vera en niðurstaðan er eins og sést í nýútkominni námskrá frá ráðuneytinu, megináherslan er á frumu-, erfða-, örveru-, og vistfræði.

Kennslubók

Mikil vinna hefur farið í að leita að nýrri kennslubók sem nýst geti nýjum skylduáfanga (NÁT103) í framhaldsskólum. Þrjár nýjar kennslubækur í náttúrufræði hafa verið gefnar út fyrir efstu bekki grunnskólans og eru tvær þeirra aðallega líffræði. Þessi nýja bók verður að vera framhald þeirra og ljúka líffræðinni fyrir aðra en náttúrufræðibrautanemendur. Haft var samband bæði við Mál og menningu og IÐNÚ og fengust nokkrar bækur til að skoða og hafa þær verið sendar milli manna til yfirlesturs. Satt best að segja var enginn þeirra með áherslum í líkingu við það sem í NÁT103 áfanganum er gert ráð fyrir. Niðurstaðan varð þá sú að leita eftir einhverjum sem væri til í skrifa slíka bók. Og nú nýverið samdi IÐNÚ við Örnólf Thorlacius um að skrifa hana. Áætlað er að bókin komi út í tilraunaútgáfu næsta haust.

Kennsluverkefni

Samlíf sótti um tvo styrki til námsefnisgerðar á framhaldsskólastigi. Annan styrkinn átti að nota til að kaupa verkefni og verklegar æfingar af kennurum til að setja inná væntanlega heimasíðu félagsins. Hinn styrkinn átti að nota til að leita að kennslubókum fyrir framhaldsskólann. Báðum þessum styrkumsóknum var hafnað.

Námskeið.

Samtökin stóðu að þremur námskeiðum á þessu ári og tókust þau öll einstaklega vel og voru þátttakendum að mestu að kostnaðarlausu.

Fyrst var námskeið fyrir grunnskólakennara sem vildu kynnnast og taka upp Globe verkefnið. Samlíf var beðinn um að tilnefna verkefnisstjóra á Íslandi í þessu alþjóðlega umhverfis- og upplýsingatækni verkefni. Undirritaður varð fyrir valinu. Námskeiðið stóð í þrjá daga og var haldið í Álftamýrarskóla í Reykjavík. Námskeiðið sóttu 17 grunnskólakennarar víðsvegar af landinu.

Annað námskeiðið var fyrir bæði grunn- og framhaldsskólakennara. Það var nú haldið í Bjarnarfirði á Ströndum. Námskeiðið var undirbúið af Smára Haraldssyni og Helgu Friðriksdóttur við Framhaldsskóla Vestfjarða og þótti það takast afar vel í alla staði. Þátttakendur voru 22 grunnskólakennarar og 9 framhaldsskólakennarar og námskeiðið stóð í fimm daga. Allt lífríkið á Ströndum var lagt undir, skoðaður gróður, sjávarspendýralíf, vatnalíf og mannlíf.

Þriðja námskeiðið var fyrir framhaldsskólakennara eingöngu og var haldið í ágúst. Þar var fjallað um ónæmisfræði. Skúli Þór Magnússon var umsjónarmaður þess og fékk hann Helga Valdemarsson lækni á Landspítalanum til að skipuleggja og fá sérfræðinga til fyrirlestrahalds. Þátttakendur voru mjög ánægðir hvernig til tókst.

Námskeiðahald er orðið aðalverkefni samtakanna enda ekki óeðlilegt því að líffræðikennarar þurfa mikla símenntun enda greinin í hraðari þróun en flestar aðrar.

Nú þegar er farið að undirbúa námskeið næsta sumars, er útlit fyrir að þau verði áþekk því sem var í sumar.

Erlend samvinna.

NBR(Nordisk Biologisk Rad) hélt fund í ágúst í Röros í Noregi. Formaður sótti þann fund. Þar var mest rætt um námskeið og að opna námskeið félaganna fyrir félögum frá öðrum löndum. Var m.a. rætt um að halda í Danmörku svokallað landslagsnámskeið árið 2000 og námskeið um sjávarlíffræði 2001 sem sniðið yrði að þörfum líffræðikennara frá öllum Norðurlöndum. Hafa Danir nú þegar sótt um styrki m.a. til Norrænu ráðherranefndarinnar til þessara námskeiða.

Að venju höfum við greitt til stjórnar Ólympíukeppninnar í líffræði. Að öðru leyti höfum við ekki tekið þátt í þeirri starfsemi.

Merki Samlífs

Stjórnin fékk Vilhelmínu Gunnarsdóttur í MR til að koma með hugmyndir að merki Samlífs. Hún lagði fram fjölda hugmynda og hefur stjórnin valið þrjú til frekari skoðunar.

Tvö fylgja hér á eftir en eitt (þrír fuglar) er notað sem haus á fréttabréfið.

Samlíf – samtök líffræðikennara.

 

                   

Lauf og vatn og tveir fuglar

Það er réttast að félagsmenn velji merkið á aðalfundinum, þann 8. des. nk Þeir sem ekki geta mætt á aðalfundinn en vilja hafa áhrif á valið geta sent mér tölvupóst, johgud@ismennt.is fyrir fundinn.

Fréttabréf

Þetta er aðeins annað Fréttabréf þessarar stjórnar og er slíkt henni til skammar. Þetta má kenna formanni og leti hans.

Tölvumál

Formaður er að búa til lista yfir félagsmenn og netföng þeirra. Kennarar í framhaldsskólum fengu vonandi bréf með fyrirspurn um líffræðibókina. Hafi þeir ekki fengið bréf frá mér sendið mér endilega línu á johgud@ismennt.is Það virðast vera villur í sumum heimasíðum skólanna og netföng starfsmanna ekki rétt þar, en ég fékk ekki meldingu um að þau bréf hefðu ekki komist til skila.

Heimasíðan er í vinnslu og kemur vonandi fljótlega á netið. Ásgrímur Guðmundsson í FB hefur tekið að sér að vera síðusmiður.

Jóhann Guðjónsson

formaður

 

Ef viðtakandi finnst ekki, vinsamlegast endursendið fréttabréfið.

Samlíf – Samtök líffræðikennara

Pósthólf 8282

128 Reykjavík


Smelltu hér til að komast á upphafssíðu