Fréttabréf 
Samlífs
Samtaka líffræðikennara

Ábm. Jóhann Guðjónsson

Nóvember 2000

 

Aðalfundur Samlífs verður haldinn miðvikudaginn 6. desember 2000 í Kennarahúsinu við Laufásveg, kjallara kl. 20.00..

Dagskrá:

1. Venjuleg aðalfundarstörf

2. Kennslubækur í framhaldsskólanum

3. Námskeið á vegum félagsins

4. Önnur mál

Stjórnin

 

Ársskýrsla 1999 -2000

Starfsemi Samlífs.

Það má skipta starfsemi Samlífs í nokkra þætti, sbr. lög félagsins.

1. Námskeið.

Námskeið eru aðalviðfangsefni samtaka líffræðikennara eins og reyndar flestra fagfélaga. Það fer mikil vinna í að undirbúa námskeiðin, bæði faglega og svo að leita fjárhagslegs stuðnings. Við buðum upp á þrjú námskeið síðastliðið sumar.

a) Okkar venjulega sumarnámskeið sem við ætlað var á Hvanneyri í Borgarfirði, með megináherslu á íslenskan landbúnað, áhrif hans og framleiðslu. Svona námskeið eru dýr, því gisting og uppihald leggst ofan á kostnað við fyrirlestra og skoðunarferðir. Það verður að segjast að styrkgjafar hafa ekki skilning á því að óformleg umræða sem á sér stað á kvöldin sé stór þáttur í að byggja kennara upp. Við líffræðikennarar höfum alltaf byggt okkar sumarámskeið með því markmiði að skapa aðstæður svo kennarar geti á óformlegan hátt rætt viðfangsefni greinarinnar og slíkt skapast eðlilega ef námskeið eru haldin í utan höfuðborgarinnar. Skammt er frá því að segja að umsækjendur um þetta námskeið urðu ekki nægilega margir og því varð að fella það niður. Ætlunin er að bjóða upp á slíkt námskeið aftur á sumri komanda og vonum við að þátttakan verði betri. Sérstaklega vil ég benda grunnskólakennurum að sækja um því kostnaður við þessi námskeið hefur verið í lágmarki og þetta er eitt af fáum námskeiðum þar sem kennarar úr grunn- og framhaldsskóla sækja saman.

b) Í ágúst vorum við með stíft faglegt námskeið ætlað framhaldsskólakennurum um frumufræði. Halldór Þormar prófessor emeritus í HÍ skipulagði það í samráði við Ásgrím Guðmundsson frá Samlífi. Þetta námskeið tókst í alla staði vel og voru þátttakendur afar ánægðir enda Halldór frábær fyrirlesari og einstaklega vel að sér í öllum nýjungum á þessu sviði. Eva Benediktsdóttir ætlar að setja upp samsvarandi námskeið fyrir næsta sumar um örverufræði.

c) Ætlunin var að halda námskeið til að kynna verklýsingar Globe verkefnisins síðastliðið vor en umsóknir voru of fáar til að það næðist. Globe verkefnið er mjög umfangsmikið alþjóðlegt raungreinaverkefni og gefur það mikla möguleika á verklegum þætti raungreina, upplýsingatækni og erlendum samskiptum.

d) Endurmenntunarstofnun HÍ stendur fyrir vettvangsnámi fyrir raungreinakennara í framhaldsskólum. Undirritaður, formaður Samlífs, var fenginn til að leiða það. Þetta er námskeið á starfstíma skóla og fá kennarar smá fjárhagslega umbun fyrir þátttöku. Áhugi á því var mikill og nú eru raungreinakennarar úr fimm skólum sem taka þátt.

2. Kennslubækur.

Annað aðalverk samtakanna hefur verið að vinna að fjölgun kennslubóka innan líffræðinnar. Undirritaður hefur verið í sambandi við útgáfufyrirtæki til að fylgja þessu eftir. Nú er Örnólfur Thorlacius að skrifa kennslubók fyrir NÁT103 áfangann og vonandi kemur hún fljótlega. Það var að okkar ósk að hún yrði gefin út sem handrit í upphafi þannig að félagsmönnum gæfist kostur á að gera athugasemdir. Því miður hefur bókin ekki enn séð dagsins ljós en vonandi verður það fljótlega.

3. NBR – Norræn samskipti.

Við erum í sambandi við Norræn líffræðkennarasamtök(Nordisk Biologisk Råd, NBR) og við getum sótt um að vera með í námskeiðum þeirra. Ég auglýsti þetta í síðasta Fréttabréfi en ég veit ekki til þess að neinn hafi sótt um. (Það eru til peningar til að styrkja fólk, bæði grunn- og framhaldsskólakennara.) Því miður gat enginn farið á síðasta ársfund sem haldinn var í Svíþjóð í maí síðastliðin (Það var stuttur fyrirvari og prófatími í framhaldsskólum.). Næsti fundur er áætlaður í Riga í Lettlandi í annarri viku af maí 2001. Þar sem enginn komst síðast er nauðsynlegt að einhver fari til Lettlands í vor.

4. Upplýsingar- heimasíða.

Samlíf setti upp heimasíðu í vor. Slóðin er http://www.ismennt.is/vefir/samlif/. Þetta er mjög falleg síða og hana skuluð þið setja inn á uppáhaldssíðurnar (favorites) ykkar og skoða hana alltaf öðru hverju. Þar verður reynt að hafa allaf nýjar upplýsingar um starfsemina. Ritstjóri síðunnar er Ásgrímur Guðmundsson gjaldkeri Samlífs og kennari við Fjölbrautaskólann í Breiðholti.

5. Náttúruverndarþing.

Samlíf á aðild að Náttúruverndarþingi. Þingið var haldið í lok janúar og sótti undirritaður það. Náttúruverndarþing eru grundvöllur skoðanaskipta um náttúruverndarmál. Umræðan nú snerist mest um virkjun við Eyjabakka, en allir vita hvernig það mál fór. Það sem snýr að okkur kennurum er ef til vill fyrst og fremst hvernig við getum komið höndum yfir greinar og aðrar upplýsingar um náttúruverndarmál sem geta nýst okkur í kennslu. Því miður virðist það ekki vera íslenskum líffræðingum, og öðrum sem starfa við þessi mál, mikið keppikefli að sinna þessari eðlilegu þörf.

6. Umsagnir um styrki til námsefnisgerðar.

Samlíf er eins og önnur fagfélög umsagnaraðili um styrkumsóknir til námsefnisgerðar á framhaldsskólastigi. Við fórum yfir þrjár umsóknir í ársbyrjun. Þær mátum við allar styrkhæfar. Við höfum farið yfir slíkar umsóknir í nokkuð mörg ár, en okkur finnst vanta ákveðið eftirlit með því að það sem verið er að styrkja sjái einhvern tíma dagsins ljós. Líka er oft verið að styrkja verkefni um aðeins brot af þeim kostnaði sem fylgir því að búa þau til. Því verða höfundar oft að leggja viðbótarkostnaðinn á sig eða gefast upp og efnið kemst aldrei í útgáfu eða þangað sem því ætlað í upphafi.

7. Fjárhagur

Fjárhagur Samlífs er traustur, þó svo ekki hafi verið innheimt nein félagsgjöld í nokkur ár. Við njótum styrks frá menntamálaráðuneyti og einnig hefur verið leitað styrkja til fyrirtækja og stofnana.

F.h. Samlífs:

Jóhann Guðjónsson formaður.


Smelltu hér til að komast á upphafssíðu