Fréttabréf 
Samlífs

Samtaka líffræðikennara

Ábm. Jóhann Guðjónsson

Nóvember 2001

 

Aðalfundur

 

Samlífs – Samtaka líffræðikennara 2001

 

verður haldinn í Kennarahúsinu við Laufásveg fimmtudaginn 6. desember 2001 kl: 20.00.

 

Venjuleg aðalfundarstörf

 

Veitingar í boði félagsins

 

Mætið öll

 

Stjórnin

Frá formanni:

Eins og kemur fram í skýrslu stjórnarinnar hér á eftir leiða nýju kjarasamningarnir hjá framhaldsskólakennurum til þess að erfiðara verður að fá félagsmenn til að sækja námskeið Samtakanna. Menn bera það fyrir sig þeir fari ekki að sækja námskeið nema það gefi þeim punkta til hækkunar launa. Þarna held ég að menn hafi ekki skilið samningana rétt því einn tilgangur þeirra er að kennarar geti hækkað laun sín með að sýna fram á alúð í skólastarfi. Eitt af því sem fellur undir alúðina er að fylgjast með í faginu, sem sé að sækja námskeið. Því eru þeir sem ekki sækja námskeið að halda aftur af launaskriði kennara. Þið hækkið því launin ykkar með því að sækja námskeið.

Fréttabréfið kemur ekki oft út, miklu sjaldnar en stjórnin þyrfti að geta haft samband við félagsmennina. Því höfum við verið að reyna að búa til póstvef fyrir félagsmenn þar sem við getum sent félagsmönnum bréf á milli þess sem fréttabréfið kemur út. Okkur berast fréttir, fyrirspurnir, atvinnuauglýsingar o.s.frv. sem æskilegt væri að félagsmenn fengju að frétta af sem fyrst. Ég bjó til póstlista eftir heimasíðum framhaldsskólanna og Háskóla Íslands en því miður tapaðist hann við breytingu á tölvukerfi skólans í sumar. Því vantar  netföng  allra kennara í samtökunum. Því vil ég biðja alla kennara í Samlífi að senda mér netfangið sitt, með nafni heimilisfangi, hvar þeir kenna og hvað marga tíma á á viku í líffræði(Menn geta verið félagsmenn þó þeir séu ekki að kenna líffræði þessa stundina). Einnig að biðja aðra kennara í sömu stofnun en eru ekki í Samlífi að senda okkur línu. (Það er ekkert árgjald)  Netföngin mín eru johgud@ismennt.is og johann@flensborg.is

Jóhann Guðjónsson líffræðikennari í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði.

 

Skýrsla stjórnar Samlífs fyrir árið 2001

  1. Námskeið

Eitt meginverkefni Samlífs hefur verið að standa að námskeiðum til að efla fagþekkingu og faglega umræðu um efni sem snerta líffræðina sem kennslugrein. Núna eru ákveðnar blikur á lofti í sambandi við námskeiðahald. Í síðustu kjarasamningum framhaldsskólakennara við ríkisvaldið var ákveðið að fella niður þá umbun í launum sem kennarar fengu fyrir að sækja námskeið, þ.e. að punktakerfið var fellt niður og nú byggist grunnröðun í launaflokka eingöngu á lokaprófi háskólanáms. Þeir sem duglegastir hafa verið að sækja námskeið hafa getað unnið sig upp um nokkra launaflokka. Nú er því hætt. Áhrif þessarar nýju reglu má vel sjá  í þátttöku framhaldsskólakennara í námskeiðum nýliðins sumars, ekki bara innan okkar félags heldur líka flestra annarra fagfélaga framhaldsskólakennara sbr. nýlega útgefið yfirlit yfir námskeið á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands. Áætlun okkar fyrir sumarið 2001 gerði ráð fyrir tveimur námskeiðum eins og oftast hafa verið haldin, einu sumarnámskeiði fyrir kennara beggja skólastiga og hins vegar einu fagnámskeiði fyrir framhaldsskólakennara. Að verkfalli loknu í janúar 2001 ákvað stjórnin að falla frá sumarnámskeiðinu en halda fagnámskeið um örverufræði. Það námskeið var haldið í júni í Menntaskólanum í Reykjavík undir leiðsögn öflugra kvenna. Eva Benediktsdóttir, Háskóla Íslands og í stjórn Samlífs, skipulagði námskeiðið og fékk til við liðs við sig sérfræðinga víðs vegar að um örverur, bæði af spítölum og úr nýju líftæknifyrirtækjunum sem hafa verið að hasla sér völl hér á landi á síðustu árum. Það gekk ekki of vel að fá framhaldsskólakennara til að sækja þetta námskeið, en að lokum tókst að fá 10 kennara til þátttöku, lágmarkið sem Endurmenntunastofnun setti. Það verður að segjast að þeir sem sóttu námskeiðið voru mjög ánægðir með kennsluna, sem sést best á einkunnum sem þeir gáfu leiðbeinendum og fyrirlesurum að loknu námskeiðinu. (Þetta geta menn staðfest með því að lesa skýrslu Endurmenntunarstofnunar HÍ um mat á námskeiðinu.)

 

  1. Upplýsingar- heimasíða

Samlíf setti upp heimasíðu í vorið 2000. Slóðin er http://www.ismennt.is/vefir/samlif/  Þetta er mjög falleg síða og hana skuluð þið setja inn á uppáhaldssíðurnar (favorites) ykkar og skoða hana alltaf öðru hvoru. Þar verður reynt að hafa alltaf nýjar upplýsingar um starfsemina. Ritstjóri síðunnar er Ásgrímur Guðmundsson gjaldkeri Samlífs og kennari við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Þeir sem vilja koma einhverju á framfæri geta fengið birtar athugasemdir eða spurningar á síðunni.

 

  1. Umhverfisþing

Umhverfisþing var haldið 26.-27. janúar 2001. Samlíf á einn fulltrúa á þetta þing, en við fengum undanþágu þannig að við Rut Kristinsdóttir gátum setið þingið. Ekki sátum við það allt en reyndum að taka sem mestan þátt í störfum þess. Þarna eru dregin fram flest þau umhverfismál sem eru í deiglunni, ekki bara meðal náttúrufræðinga, heldur líka meðal sveitarfélaga, áhugamannafélaga, fyrirtækja.

Þarna er fjallað um framkvæmd dagskrár 21 sem ég tel að líffræðikennarar mættu læra meira um, og þar með taka öflugri þátt í starfsemi síns sveitarfélags í að byggja upp heilbrigðara samfélgs með vaxandi endurvinnslu og minnkandi sorpi. Það er gaman og fræðandi að kynnast því hvað hinn almenni borgari er að gera og velta fyrir sér í sambandi við umhverfismál. Stundum dettur manni í hug að við, líffræðingar, séum að fjarlægjast grasrótina og vitum því ekki hvað eru “aktuel” mál hins umhverfisvæna borgara.

 

  1. Kennslubækur

Aðalverkefni Samlífs þessa árs var hvetja til útgáfu nýrra kennslubóka innan líffræðinnar á framhaldsskólastigi. Eðlilegt er að félagið vinni að því að sem bestar kennslubækur séu til staðar á hverjum tíma. Aðalkennslubókin síðastliðin áratug hefur verið “Lífið” eftir Roberts, sem Hálfdan Ómar og Þuríður þýddu fyrir næstum því fimmtán árum. Þessi bók var mjög góð en hennar tími er liðinn, enda búið að samþykkja nýja námskrá þar sem áherslur eru aðrar en bókin er byggð á. Á haustdögum kom út ný bók eftir Örnólf Thorlacius fyrir byrjunaráfangann í líffræði í framhaldsskólum(Nát 103). Sú bók er nú í kennslu í mörgum skólum og eftir því sem ég hef heyrt eru kennarar þokkalega ánægðir með hana. Kennari í Menntaskólanum í Reykjavík og nokkrir örverufræðingar eru að skrifa bók um örveru- og erfðafræði sem vonandi kemur út innan ekki of langs tíma. Þá er undirritaður og Rut Kristinsdóttir í MH að skrifa kennslubók í vist- og umhverfisfræði sem á að henta áfanga líffræði 113 samkvæmt nýju námskránni. Við tilraunakenndum hana nú í haust og ljóst er að mikil vinna er eftir áður en hún kemur út endanlegu formi. Mál og menning, útgáfufyrirtækið, hefur sýnt áhuga á að þýða ameríska bók, sem færi langt með það að dekka alla líffræðina á náttúrufræðibrautum. Vel er möguleiki að sú bók kæmi út á næsta ári verði farið af krafti í útgáfuna.

 

  1. Globe verkefnið

Árið 1997 óskaði ráðuneyti menntamála eftir því að Samlíf tilnefndi mann til að stýra íslenska þættinnum á alþjóðlega verkefninu GLOBE (Global Learning Of Benefiting the Environment), sem er alþjóðlegt verkefni um vöktun umhverfisins með þátttöku skóla. Markmið verkefnisins er að efla raungreinanám í skólum með því að tengja það rannsóknum á nánasta umhverfi skólans og safna grunnupplýsingum í sameiginlegan gagnagrunn sem GLOBE heldur utan um. Undirritaður tók að sér að verða verkefnisstjóri Glóbe á Íslandi og fór sem slíkur á námskeið í Þýskalandi ásamt tveimur kennurum sumarið 1997. Mér bar að útbreiða verkefnið sem ég og gerði þannig að nú eru 11 skólar skráðir þátttakendur hérlendis. Það eru samt ekki allir virkir, margir hafa byrjað en hætt aðrir hafa aldrei skráð neitt. Verkefnið hefur samt aldrei hætt og það er frekar reynt að bæta við það. Fyrir rúmu ári komu Norðmenn með hugmynd að nota Globe skólana á Norðurslóðum til að safna nákvæmum sýnum um útbreiðslu þrávirkra eiturefna kringum Norðurskautið. Með samvinnu við NILU, norsku loftslagsransóknarstofnunana var valið efnið PBDE47(2,2’,4,4’tetrabrómíð dífenýleter). Þetta efni notað til að draga úr bruna plastefna sem svo víða eru notuð. Því miður hefur verið sýnt fram á þetta efni veldur bæði krabbameini og hormónatruflunum meðal manna og annarra dýra. Útbreiðsla þessa efnis er óþekkt, en kunnugt er að Norðurslóðir virka eins og niðurfall svipaðra efna. Því til samanburðar verður PCB mælt í öllum sýnum en útbreiðsla þess er þekkt í meginatriðum. Hér á Íslandi eru tveir skólar sem taka þátt, það eru Barnaskólinn í Vestmannaeyjum og Verkmenntaskólinn á Akureyri. Kennarar frá þeim skólum fóru á námskeið í Fairbanks í Alaska síðastliðið sumar, þar sem þeir lærðu hvernig standa skyldi að sýnatökunni. Nú í október tóku þeir sýni úr þeim fiski sem algengastur í neyslu almennings á svæðinu (einfalt hjá okkur: ýsa) og sendu sýnin til Noregs til greiningar ( í Vestmanneyjum fóru nemendur sjálfir á sjó og veiddu fiskinn). Skoðið vefinn www.nilu.no/web/arcticpops Við erum að skipuleggja næsta vinnunámskeið á Akureyri þann 8. – 12. ágúst á næsta ári. Við vonumst til að þar mæti kennarar frá öllum löndum sem liggja að Norðurskautinu.

Við látum ekki þar við sitja heldur viljum við efla íslenskar rannsóknir sem tengjast Norðurslóðum. Samlíf hefur því ákveðið að styrkja ungan líffræðinema til að vinna að verklýsingu sem væri hægt að nota til að ákvarða þann tíma sem þang verður kynþroska að vori. Fyrsta þangið verður kynþroska í mars og tegundirnar verða svo kynþroska hver af annarri allt fram á vor. Þetta langar okkur til að vakta og því styrkjum við rannsóknir á þessu verkefni.

Samlíf fékk með nokkrum eftirgangsmunum styrk til að vinna að þessu verkefni. Þrjú ráðuneyti styrkja þetta verkefni, umhverfis-, menntamála-, og utanríkisráðuneytið og greiða til þess um 400.000.- á ári hvert þessi fjögur ár. Ég ætla ekki að fara út í aðferðirnar sem beitt var til að ná þessum peningum, en þeir eiga að geta eflt starfsemi félagsins ekki aðeins við þetta verkefni heldur líka til að efla almennt starf félagsins. Einn af þeim þáttum til að útvíkka starfið er þessi styrkur til háskólanema til að vinna að verkefni sem nýtist kennslu.

Fyrir hönd stjórnar:

Jóhann Guðjónsson formaður Samlífs

 

Ef viðtakandi finnst ekki, vinsamlegast endursendið fréttabréfið.

 Samlíf – Samtök líffræðikennara

Pósthólf 8282

128 Reykjavík