Fréttabréf 
Samlífs
Samtaka líffræðikennara

Ábm. Jóhann Guðjónsson

Nóvember 2002

AÐALFUNDUR

 

Samlíf boðar til aðalfundar laugardaginn 23. nóvember 2002 kl: 11.00 á veitingahúsinu Lækjarbrekku, Lækjargötu, Reykjavík.

Dagskrá :

1. Aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins.

2. Kynning á verkefninu: Ungir vísindamenn

3. Örnólfur Thorlacius kynnir nýja útgáfu bókarinnar: Lífeðlisfræði

4. Hádegismatur í boði Samlífs.

Vegna hádegisverðarins þurfa félagsmenn að tilkynna þátttöku til formanns Samlífs fyrir 18. nóvember (johgud@ismennt.is).

 

Ef þið hafið áhuga á náttúrufræði notið tækifærið og fáið ókeypis málsverð.

 

 

Ársskýrsla formanns Samlífs – samtaka líffræðikennara 2001-2002.

 

Samlíf – samtök líffræðikennara verða 20 ára þann 23.september 2003. Undanfari samtakanna var Jarðlíf, óformleg samtök líffræði- og jarðfræðikennara í framhaldsskólum. Samlíf var stofnað í sal Námsgagnastofnunar ríkisins við Laugaveg 176. Fyrsti formaðurinn var Guðrún Svansdóttir þá kennari við MH. Margir góðir líffræðikennarar hafa verið formenn og í stjórn samtakanna síðan. Ég var kosinn formaður síðla árs 1998 og tók við af Rut Kristinsdóttur kennara við MH.

Saga samtakanna er ákaflega brotakennd. Við eigum fundagerðarbók frá árinu 1992. Okkur vantar fyrri fundagerðarbók – ef einhver hefur hana í sínum fórum viljum við gjarna fá hana.

Myndir frá námskeiðum Samlífs viljum við líka fá – sérstaklega hópmyndir – ef þið eigið þær skannið þær inn og sendið okkur. Við ætlum að birta þær á heimasíðunni.

 

Stjórn:

Í stjórn Samlífs sitja nú:

Jóhann Guðjónsson, formaður, Flensborgarskólanum, johgud@ismennt.is  eða johann@flensborg.is

Ásgrímur Guðmundsson, gjaldkeri, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, ag@fb.is

Eva Benediktsdóttir, ritari, Háskóla Íslands, eben@hi.is

Kristján Sigfússon, meðstjórnandi, Hlíðaskóla, krisi@ismennt.is  gigks@li.is

Skúli Þór Magnússon, meðstjórnandi, Menntaskólanum við Sund. sthm@ismennt.is

 

1. Námskeið.

Við sóttum um styrk til Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands um tvö námskeið síðastliðið sumar, annað sem átti að vera svipað og mörg, ágæt námskeið sem við höfum haldið um umhverfi okkar og tengsl okkar við það. Þau hafa verið haldin úti á landi og margir eiga góðar minningar frá þeim. Sigrún Helgadóttir var tilbúin til að stýra þessu námskeiði sem ætlunin var að halda á Suðurlandi. Það átti að vera styttra en fyrri, slík námskeið og haldið um helgi í júni. Það er skemmst frá því að segja að ekki var áhugi félagsmanna fyrir því og því var það fellt niður.

Hitt námskeiðið var Globe námskeið, þ.e. að kynna þátttakendum aðferðir Globe við vöktun náttúrunnar. Það var eins og hið fyrra, fyrir bæði grunn- og framhaldsskólakennara. Nokkrir kennarar sýndu áhuga á þessu námskeiði en ekki nægilega margir, svo við urðum að fella það líka niður.  Fyrir áhuga kennaranna í Vestmannaeyjum var námskeiðið svo haldið í Vestmannaeyjum 11. og 12. október 02 og það sóttu aðeins grunnskólakennarar þó öllum kennurum væri boðin þátttaka. Samlíf sótti um styrk til þess námskeiðs frá Þróunarsjóði grunnskóla.

Það verður að segjast að námskeiðin þetta ár hafa valdið okkur áhyggjum. Umsóknir eru alltof fáar, hvort sem um er að ræða framhaldsskóla- eða grunnskólakennara. Það eru ákveðin tímaskil í líffræðikennslu á Íslandi, hugsanlega eftir síðustu kjarasamninga kennara, þar sem felld var niður umbunin fyrir að sækja námskeið, sem gera það að verkum að við verðum að hugsa okkar námskeið öðru vísi en áður. Hugsanlega verðum við að fara að skipuleggja námskeið sem haldin eru í fjarlægum löndum eins og á Galapagos eða Madagaskar, þar sem kynnast má sérstakri náttúru. Slíkar ferðir eru kostnaðarsamar, en þetta er það sem kollegar okkar á Norðurlöndum hafa verið að gera.

Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldskólakennara hefur ákveðið að styrkja aðeins eitt sumarnámskeið í hverju fagi fyrir sumarið 2003. Stjórn samlífs ákvað á fundi sínum 31.10.02 að reyna námskeið um lífeðlisfræði næsta sumar (Niðurstaða könnunar á síðasta námskeiði.). Samstarfsnefndin hefur ákveðið að stuðla frekar að einstökum fyrirlestrum sem fara á milli skóla. Eigum við að búa til einhverja slíka? Ef þið hafið einhverjar hugmyndir þá sendið undirrituðum þær endilega. Þetta er líka til grunnskólakennara, við getum örugglega fengið einhverja styrki til að senda einhvern til að koma í grunnskóla og flytja fyrirlestur um náttúrufræði.

Upplýsingar- heimasíða

Heimasíðan okkar http://www.ismennt.is/vefir/samlif/ er ekki nógu vel sótt, sennilega vegna þess að á henni er ekki efni sem nýtist kennurum og líffræðikennslu. Á því ættum við að geta gert bragarbót. Ég legg til að við höfum á heimasíðunni sameiginlegan grunn yfir það efni sem okkur finnst aðrir líffræðikennarar ættu að vita um og líka tengi sem við höfum fundið héðan og þaðan.

Kennslubækur

Kennslubækur eru eilíft vandamál og verða það örugglega áfram.

Líffræði eftir Örnólf Thorlacius þarfnast mikilla lagfæringa að mér er sagt. Menn geta ekki bara nöldrað í barm sér. Sendið mér athugasemdir eða Örnólfi beint.

Örnólfur var að endurskoða lífeðlisfræðina sína og nú er hún komin út í þriðju útgáfu frá IÐNÚ.

Við Rut Kristinsdóttir erum enn að reyna að skrifa vistfræði og umhverfisfræði. Hún hefur verið kennd í handriti í nokkrum skólum og ljóst er að mjög margt þarf að lagfæra.

Nokkrir skólar hafa tekið upp erlendar bækur til að kenna í líffræðiáföngunum (LÍF 103, lífeðlisfræði, Líf113, vistfræði og umhverfisfræði, Líf 203 erfðafræði, Líf 213 örverufræði, Líf 303 Verkefni í líffræði.). Tilraunir hafa verið gerðar til að þýða eina stóra líffræðibók

Samvinna með Læknadeild Háskóla Íslands

Nokkrir fundir voru haldnir með kennurum Læknadeildar HÍ á vordögum 2002. Þeir óskuðu eftir samvinnu við Samlíf um gerð inntökuprófs í læknadeild Háskólans. Þeir vilja kaupa prófspurningar af kennurum framhaldskólanna sem hægt  er að nota í væntanlegum inntökuprófum deildarinnar. Ég held að þessi samvinna geti tengt okkur meir við Háskólann og stutt okkur í undirbúningi okkar nemenda fyrir nám í heilbrigðisgreinum í háskólum. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu verkefni ættu að hafa samband við undirritaðan  (Hér er grunnskólinn ekki undanskilinn.)

Styrkir til verkefna stúdenta

Í  samræmi við samþykkt stjórnar Samlífs var ákveðið að styrkja tvö verkefni sem stúdentar eru að vinna að. Annars vegar er nemandi, sem er að vinna að verkefni undir sjórn Karls Gunnarssonar á Hafrannsóknarstofnunnar og hins vegar undir stjórn Ævars Petersens á Náttúrufræðistofnun. Þarna er verkefni sem við eigum að standa að en hvernig við veljum styrkþega verðum við að taka til athugunar.

GLOBE verkefnið

Undirritaður hefur verið nú í fimm ár verkefnisstjóri Globe verkefnisins hér á landi. Samlíf var árið 1997 beðið um að tilnefna einhvern í þetta starf og þáverandi formaður bað mig að taka þetta að mér og hér sit ég. GLOBE verkefnið er stærsta alþjóðlega kennsluverkefnið í heiminum. Það eru um 100 lönd og 15 000 skólar sem taka þátt. Á Íslandi eru 11 skólar þátttakendur (bæði framhalds- og grunnskólar) sem er yfir 5% skólanna í landinu svo við erum með virkustu löndum í heiminum. Eins og fram kemur fyrr gengur erfiðlega að fylla námskeiðin hér. Því höfum sent kennara á námskeið erlendis. Nú í haust fóru tveir kennarar til Kýpur í Miðjarðarhafinu á vikunámskeið á kostnað GLOBE.

Við tökum þátt í ýmsum undirverkefnum GLOBE. Tveir íslenskir skólar þátt í verkefni sem nær til skóla í löndunum umhverfis norðurskautið. www.nilu.no/web/arcticpops  Það felur í sér söfnun sýna til að greina POPs (þrávirk lífræn eiturefni), sérstaklega var leitað að lífrænum efnum sem innihalda bróm (eldvarnarefni í plasti). Kontrólefni var PCB en dreifing þess er nokkuð þekkt um allan heim. Með verkefninu eru tekin sýni um allt Norðurhvelið á sama tíma og ættu því að vera sambærileg. Niðurstöður fyrsta vetrarins eru misvísandi, þó virðist magn brómefnanna vera meira í þorski í Atlantshafi en Kyrrahafi. Ljóst er að lengri rannsóknartíma þarf auk nákvæmari tegundagreiningu og við ætlum að reyna að bæta þetta í vetur.

Við stóðum fyrir einnar viku ráðstefnu (námskeiði (workshop)) sem haldið var í Verkmenntaskólanum á Akureyri í ágúst síðastliðnum. Þann atburð sóttu yfir 60 manns, bæði nemendur og kennarar, og af þeim voru um 50 útlendingar, kennarar og nemendur frá Alaska, Kanada, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi.

Annar hópur hefur farið á ráðstefnur í Eistlandi og Noregi, bæði kennarar og nemendur, þar sem unnið er viðfangsefni GLOBE verkefnisins.

Einnig hafa kennarar og nemendur farið til Tenerife og Póllands vegna þátttöku sinnar í GLOBE verkefninu.

Alltaf hafa bæði grunn- og framhaldsskólar verið með.

 

Jóhann Guðjónsson formaður Samlífs -johgud@ismennt.is  johann@flensborg.is

 

Ef viðtakandi finnst ekki, vinsamlegast endursendið fréttabréfið.

 

Samlíf – Samtök líffræðikennara

Pósthólf 8282

128 Reykjavík