Á aðalfundi Samlífs sem haldinn var laugardaginn 21. apríl 2012 urðu breytingar á stjórn félagsins. Jóhann Guðjónsson, Flensborg, sem hefur verið stoð og stytta félagsins undanfarin ár baðst undan áframhaldandi setu í stjórn. Jóhann hefur starfað meira og minna með félaginu í um 20 ár. Að auki gekk úr stjórn Ólafur Örn Pálmarsson, Laugalækjarskóla. Ester Ýr Jónsdóttir, FSu, var endurkjörin formaður, Arnar Pálson,HÍ, og Rúna Björk Smáradóttir, FÁ, voru einnig endurkjörin. Í stað þeirra Jóhanns og Ólafs voru kjörnar þær Halla Sigríður Bjarnadóttir, Flúðaskóla, og Hólfríður Sigþórsdóttir, Flensborg. Stjórnin mun skipta með sér verkum á næsta stjórnarfundi.
Sú nýbreytni var þetta árið að boðið var upp á fræðsluerindi í lok aðalfundar. Alls sóttu 16 félagar aðalfundinn og tveir bættust við til að hlýða á fræðsluerindið en það var Dr. Hannes Petersen, yfirlæknir á háls-, nef- og eyrnadeild Landsspítalans og dósent við HÍ, sem fræddi okkur um heilann, taugakerfið, byggingu innra eyra og sjóveiki svo eitthvað sé nefnt.