Samlíf tók þátt í Ólympíuleikunum í líffræði í Íran. Jóhanna Arnórsdóttir hefur leitt starfið og séð að mestu um að afla fjár. IBO nefnd Samlífs tókst með mikilli þrautseigju að fjármagna þátttöku með styrkjum. Fjárhagur IBO er aðskilinn Samlífs þó tekjur og gjöld fylgi hér með til upplýsingar. Með fylgjandi er greinargerð vegna leikanna.

Ólympíukeppnin í líffræði (IBO, fór fram í Teheran í Íran dagana 15.-22.júlí. Landslið Íslands samanstóð af fjórum framhaldsskólanemendum. Þeim fylgdu tveir kennarar sem jafnframt gegndu starfi dómara í keppninni.

Þetta var í þriðja skiptið sem Ísland sendi lið í keppnina. Árangur íslenska liðsins hefur orðið betri með hverju skipti. Í þetta sinn unnu tveir nemendur til heiðursverðlauna og var annar þeirra mjög nálægt því að vinna til brons­verðl­auna. Nemendurnir sem fengu heiðursviðurkenningar voru Gizur Sigfús­son og Hera Gautadóttir, bæði stúdentar frá MR nú í vor. Skemmtilegt er að geta þess að tveir nemenda liðsins eiga möguleika á að reyna sig öðru sinni þar sem þeir munu enn uppfylla aldursskilyrði á næsta ári. Annar þeirra hefur að­eins lokið fyrsta námsári í framhaldsskóla en hinn er á næst síðasta náms­ári.

Ekki er sanngjarnt að bera árangur íslenska liðsins við árangur nágranna­þjóðanna þar sem mun meira er lagt í undirbúning nemenda hinna síðar­nefndu. Ljóst er að við stöndum nágrönnum okkar, að frátöldum Norð­mönnum, nokkuð langt að baki bæði í verklegum og fræðilegum hluta próf­verkefn­anna. Hinar Norðurlanda- og Norðurevrópuþjóðirnar leggja mikið upp úr árangri í keppnum sem þessari. Hjá þeim er teymi þjálfara og þýðenda í launuðu starfi við framkvæmd landskeppnanna, þjálfun liðsins og við þýðingar og aðstoð á meðan á keppninni stendur. Á Íslandi er öll þessi vinna unnin án endur­gjalds í frítíma viðkomandi kennara.

Að þessu sinni var umsýsla í aðdraganda keppninnar mjög krefjandi vegna vegabréfsáritana og annars undirbúnings sem ferð til svo framandi lands sem Íran krefst.

Meðal þeirra verkefna sem kennarar vinna endurgjaldslaust í þágu þátttöku í keppninni eru:

  1. Samning og fyrirlögn prófa í forkeppni. Prófin eru samin í samstarfi framhaldsskólakennara og kennara Háskóla Íslands. Í ár tóku 240 nemendur úr 10 framhaldsskólum þátt í forkeppninni. 15 stigahæstu komust áfram í úrslitakeppni.
  2. Samning og fyrirlögn fræðilegra- og verklegra prófa í úrslitakeppni. Prófin voru undirbúin í samstarfi framhaldsskólakennara, háskólakennara og rannsóknanema við HÍ. HÍ lagði til aðstöðu, efni og búnað.
  3. Skráning í IBO, vegabréfsáritanir, kaup á farseðlum, gistingum og öðru sem viðkemur ferðaskipulagi. Í þetta sinn var Ali Parsi, Írani, sem hefur búið lengi á Íslandi fenginn til að aðstoða hópinn við undirbúning og vegabréfsmál.
  4. Kennarar hafa milligöngu um að útvega nemendum landsliðsins sumarstarf hjá sveitarfélögunum. Þrír nemendur fengur sumarstarf hjá Reykjavíkurborg og einn hjá Garðabæ við að undirbúa sig fyrir keppnina. Þannig eru nemendur á launum í 4-8 vikur (eftir aldri) vegna keppninnar.
  5. Styrkumsóknir og ritun greinagerða vegna styrkja.
  6. Þjálfun. Kennarar skiptast á að hitta liðið reglulega í 6 vikur í aðdraganda keppninnar. Að þjálfuninni komu einnig kennarar og rannsóknanemendur HÍ.
  7. Dómgæsla og þýðingar prófverkefna í keppninni sjálfri.

– Keppnin hefst á sunnudegi með opnunarhátíð.